140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[15:01]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég verð að játa að ég er ekki með beina spurningu, heldur frekar smáhvatningu til hv. þingmanns. Ég tek undir með honum að niðurskurðurinn fram undan er ekkert tilhlökkunarefni. En það er nokkuð sem við munum fara mjög vandlega yfir og kanna hvort þessar tillögur séu örugglega ekki að grafa undan grunnstoðunum. Ég geri ráð fyrir því að ráðherrar leggi fram raunhæfar tillögur, en við munum fara yfir það.

Það eru líka mjög góðar glætur í þessu frumvarpi, það er verið að lækka tryggingagjald til fyrirtækja, hækka laun ríkisstarfsmanna, almannatryggingar og atvinnuleysistryggingar. Þetta eru jákvæðar fréttir. Þetta er niðurstaðan úr kjarasamningum og þetta er mjög jákvætt fyrir íslensk heimili og fyrirtæki þó að vissulega séu líka auknar álögur. Þær eru þó ekki almennar á fyrirtæki og heimili.

Síðan eru skuldir ríkissjóðs minni en áætlað var en þær fara vaxandi — eins og gert var ráð fyrir — þangað til við náum heildarjöfnuði. Ég fagna því að hv. þingmaður er áheyrnarfulltrúi í fjárlaganefnd og held að það skipti máli fyrir nefndina því að hv. þingmaður hefur mikinn áhuga á skuldastýringarmálum. Áður en við förum að ræða um að við fáum afskrifaðar skuldir — sem ég tek heils hugar undir með fjármálaráðherra að mér finnst ekki koma til greina — ættum við frekar að fara yfir það hvernig við getum stjórnað umsýslu skulda íslenska ríkisins með sem hagkvæmustum hætti.

Þetta var því, frú forseti, hvatning mín til þingmannsins.