140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[15:05]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Niðurskurður í heilbrigðismálum er svo sannarlega erfiður og nú þegar hafa forstöðumenn og -konur í íslensku heilbrigðiskerfi skorið með ráðdeildarsemi niður þá fjármuni sem íslenskar heilbrigðisstofnanir hafa til umráða.

Ég deili alveg áhyggjum hv. þingmanns af Landspítalanum og tel að þar hafi verið staðið mjög vel að verki. Áður en ég gef út yfirlýsingar um afstöðu mína til þeirra tillagna sem liggja fyrir í frumvarpinu verðum við að hitta þær stofnanir sem í hlut eiga og fara yfir það með hvaða hætti er raunhæft að framfylgja þessum tillögum og leggja mat á hvort við teljum hægt að láta frumvarpið ná svona fram að ganga. Ég trúi því að ráðherrarnir leggi fram raunhæfar tillögur en ég segi sannarlega að ég mun fara gagnrýnið yfir þær. Það er það eina sem ábyrgir þingmenn geta gert og ég held að hv. þingmaður þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur af því að við munum ana að einhverju þegar kemur að svo mikilvægri þjónustu sem heilbrigðisþjónustu.