140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[15:44]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt að við frestuðum niðurskurði á síðasta ári, raunar fjórðungi eða sem nam þremur tólftu af niðurskurðinum, en þó þannig að við felldum niður upphaflega áætlaðan niðurskurð á Sauðárkróki og Húsavík. Í tillögunum sem lágu fyrir fyrir ári var upphaflega talað um 40% en nú verður það í heild um 20% sem er ærið nóg. Almennt hefur heilbrigðiskerfið verið að skera hraustlega niður og skila sínu í þessari endurskipulagningu.

Það sem hefur vantað inn í umræðuna er hvort rétt hafi verið gefið í upphafi og hvenær, vegna þess að útgjöldin höfðu náttúrlega aukist mjög mikið á árunum á undan. Þess vegna höfum við núna farið tvær yfirferðir, allar stofnanir voru heimsóttar meðan fjárlagafrumvarpið var í þinginu í fyrra og síðan var aftur farið í vor. Í augnablikinu er starfandi starfshópur undir stjórn ráðuneytisstjóra velferðarráðuneytisins með fulltrúum frá Landspítala, þ.e. Björn Zoëga, síðan er þar Þorvaldur Ingvarsson frá Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri ásamt fulltrúum frá Egilsstöðum, Vesturlandi og Reykjavík. Hópurinn er einmitt að fara að skoða tölurnar heildstætt ásamt sérstöku ráðgjafarfyrirtæki sem er Boston Consulting Group. Það á að fara yfir talnafræðina, hvar við erum að eyða miklu, hvað erum við að eyða litlu, hvort við séum að veita þá þjónustu sem við ætlum okkur o.s.frv. Ég bind miklar vonir við að þetta komi inn í fjárlagavinnuna og farið verði yfir þetta.

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða var nefnd hér og þar kom í ljós að þessi vinna er ekki einföld. Þar gerðu tveir einstaklingar athugasemdir og komu með fullt af ágætum ábendingum. Annar þeirra var byggðahagfræðingur í námi og þegar ég spurði hvað hann þyrfti langan tíma til að fara heildstætt yfir þetta með okkur til að vinna að skýrslu og reyna að vega og meta áhrifin af ýmsum aðgerðum (Forseti hringir.) þá sagði hann að það tæki a.m.k. þrjú ár. Þessi vinna er ekkert einföld og skýrslan svaraði því miður ekki öllum spurningum þó að þar væri fín gagnrýni til umræðu. Sú skýrsla undirstrikaði (Forseti hringir.) einmitt þörfina á því að við eigum betri grunna til að reikna út og skoða hlutina.