140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[15:47]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er rétt sem hæstv. ráðherra segir í sambandi við það sem kom út úr skýrslunni sem unnin var í fyrra vegna niðurskurðar á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Það er svo mikilvægt, eins og ég sagði áðan, að við gerum okkur grein fyrir hvað við erum í raun og veru að færa til. Hæstv. ráðherra nefndi líka heilbrigðisstofnanirnar á Sauðárkróki og Húsavík. Spurningin er þessi: Erum við bara að færa til verkefni frá einum stað til annars? Erum við til að mynda að færa verkefni frá Sauðárkróki á Akureyri en samt í raun og veru að spara mjög lítið? Þetta finnst mér vanta og ég fagna því ef, eins og hæstv. ráðherra segir, að búið sé að vinna ákveðna vinnu í þessu sambandi. Við fáum þá væntanlega að sjá þau gögn því við fjárlagagerðina í fyrra fannst mér vanta undirgögn sem sýndu fram á hina raunverulega réttu niðurstöðu en ekki, eins og kom fram og okkur var bent á, að menn væru bara að færa til. Fyrir utan það sem allir vita að þegar menn búa til að mynda á Sauðárkróki og þurfa síðan að fara alla leið norður á Akureyri til að sinna þessu, þá kostar það náttúrlega óheyrilega mikið fyrir samfélagið og rýrir búsetuskilyrði á svæðinu. Það gefur augaleið.

Eins þegar menn bökkuðu með niðurskurðinn á Heilbrigðisstofnun á Blönduósi, hvað gerðist þá? Þá sögðu menn: Við erum komnir alveg inn í bein og þetta er orðin heilsugæsla en ekki sjúkrahús. En hvað gerir það að verkum núna að við komumst enn lengra til að skera niður? Við þurfum auðvitað að hafa réttar upplýsingar og eigum að vinna þetta þannig. Ég hvet hæstv. ráðherra til að skoða sérstaklega hvort brögð geti verið að því að einstaka heilbrigðisstofnanir eða sjúkrastofnanir séu hugsanlega, ég veit ekki um það, að færa verkefni frá sér yfir á Landspítalann sem er ákveðin endastöð, út af kostnaði við rannsóknir sem menn gætu hugsanlega gert hjá sér, til þess að færa til kostnaðinn.