140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[15:49]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta hafa verið athyglisverð skoðanaskipti milli hæstv. velferðarráðherra og hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar og ég tek undir margt af því sem þar hefur komið fram. Hið æskilega er að sjálfsögðu að menn geti unnið mikla greiningarvinnu áður en þeir fara í umfangsmiklar breytingar á fjárheimildum stofnana o.s.frv. En stundum eru aðstæðurnar erfiðar og ekkert annað að gera en að reyna að ná árangri þó tími til mikillar rannsóknarvinnu og undirbúnings sé takmarkaður. Þannig hafa okkar aðstæður því miður verið.

Ég vil sérstaklega taka undir það sem hv. þingmaður nefndi með ráðstöfun sértekna og markaðra tekna. Þar hafa hlutirnir kannski á köflum þróast þannig að of mikil lausung hefur verið í því. Það er ekki endilega alltaf sanngjarnt innan ríkisrekstrarins ef einstakar stofnanir sem hafa möguleika á að sækja sér tilfallandi sértekjur í miklum mæli líta síðan svo á að í raun séu þær tekjur þeirra eign og ráðstafa þeim og krefjast svo fjárheimilda fyrir útgjöldunum eftir á. Það eru hinar samþykktu fjárheimildir frá Alþingi sem eiga að binda útgjöldin en við þekkjum þessa glímu og höfum ekki síst undanfarin ár á tímum aðhalds og sparnaðar verið að glíma við þetta. Við höfum reynt að láta alla sitja við sama borð og það séu fjárheimildirnar sem heimila útgjöldin sem gildi og að slíkar tekjur séu þá ekki endilega réttmæt eign eða krafa viðkomandi stofnunar. Í mörgum tilvikum er það svo að það sem menn tala um sem sértekjur eru í raun og veru ríkistekjur. Þannig er það t.d. með útvarpsgjaldið, það eru ríkistekjur og ekkert í lögum segir að útgjaldaheimildir og fjárheimildir Ríkisútvarpsins á hverju ári sem opinberrar stofnunar eða opinbers félags eigi að vera nákvæmlega þær sömu og tekjurnar. Aðstæður geta hæglega kallað á að þær séu eftir atvikum eitthvað meiri til að standa sómasamlega að rekstri Ríkisútvarpsins eða minni ef menn (Forseti hringir.) telja að ekki sé ástæða til að rekstur Ríkisútvarpsins þenjist út í samræmi við auknar tekjur.