140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[15:51]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir andsvarið. Ég heyri það á hæstv. ráðherra að við erum sammála um þetta. Það er rosalega erfitt að sætta sig við það, þegar maður samþykkir fjárlög fyrir árið, að útkoman verði önnur og ég held að margir hv. þingmenn standi í þeirri trú að þá sé í raun og veru verið að ákveða útgjaldaramma fyrir viðkomandi stofnun. Í fjárlögum er gert ráð fyrir sértekjum og mörkuðum tekjum upp að ákveðnu marki sem viðkomandi stofnun hefur þá til ráðstöfunar, þá er bara minna greitt úr ríkissjóði. En þegar þessar tekjuhliðar, hvort sem það eru sértekjur eða markaðar tekjur, fara síðan langt fram úr því sem gert er ráð fyrir í fjárlögum, þá verður það að vera alveg skýrt að mínu viti að stofnunin hafi ekki leyfi til að eyða þeim, það verður þá að koma fram í fjáraukalögum eða sem heimild frá Alþingi. Þetta tel ég mjög mikilvægt.

Það er mjög sláandi að á sama tíma og hæstv. velferðarráðherra þarf að fara í blóðugan niðurskurð, og engum þykir það skemmtileg vegferð að skera niður í heilbrigðismálunum, er í sumum stofnunum — ég hef nefnt það áður í þessum ræðustól að hjá Hafrannsóknastofnun jukust umsvif stofnunarinnar á milli áranna 2008 og 2009 til að mynda um 15,4% vegna þess að sértekjurnar komu inn á fullum þunga úr svokölluðum AVS-afla og því er í raun og veru úthlutað af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Það kostar auðvitað peninga fyrir Hafrannsóknastofnun að ná í sértekjurnar en hún fær þær svona og þeim fylgja ákveðnar kvaðir.

Mér finnst mjög mikilvægt að breyta þessu og ég sé ekkert því til fyrirstöðu að við gerum það núna á þessu haustþingi og að við í hv. fjárlaganefnd setjum okkur það markmið að á milli 1. og 2. umr., eða 2. og 3. umr., verði þessu breytt og sett í þann farveg að allar stofnanir ríkisins séu reknar á þeim fjárheimildum sem sannarlega koma fram í fjárlögum viðkomandi árs.