140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[15:53]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get heitið hv. þingmanni og fjárlaganefnd því að nefndin hefur fullan stuðning minn til að reyna að búa fastar um þessa hluti og ég þekki mann hér í bænum, Nökkva Bragason að nafni, sem verður alveg sérstaklega ánægður ef fjárlaganefnd leggur honum lið í því að styrkja varnir í þessum efnum, með þeim eina fyrirvara þó að hafa verður í huga í sambandi við sértekjur að stundum hefur fallið til kostnaður við öflun þeirra sem þarf þá að mæta að einhverjum hluta í samræmi við hinar auknu tekjur.

Í öðrum og enn verri tilvikum hefur það gerst að menn hafa fengið sértekjurnar greiddar en kostnaðurinn er óáfallinn og kemur síðar, eins og þegar Lyfjastofnun hefur fengið fyrir fram greitt vegna prófunar lyfja en á eftir að leggja í kostnaðinn við þær sömu prófanir. Að þessu getur þurft að hyggja svo sanngirni sé gætt en að öðru leyti á að vera miklu fastari rammi utan um þetta. Þarna þarf að betrumbæta vinnubrögð.

Ég nefni í sömu andrá að samningagerð ríkisins gegnum tíðina hefur ekki verið í nógu traustum skorðum og ríkið er í sumum tilvikum í eiginlega óþolandi stöðu gagnvart bindandi samningum án nokkurra uppsagna eða endurskoðunarákvæða sem geta þróast alveg úr takt við rekstur annarra aðila á sambærilegu sviði o.s.frv. Þarna má líka gera betur og við höfum einsett okkur að gera það.

Það eru reyndar fjölmörg umbótaverkefni í þessum efnum sem við þurfum að einsetja okkur að sinna þegar mesta björgunarstarfinu er lokið og menn kannski búnir að hvíla sig aðeins eftir það. Reynslan af glímunni við ríkisfjármálin við þessar erfiðu aðstæður hefur m.a. leitt skýrt í ljós hvar brotalamir eru sem þarf að taka betur á. Slíkir hlutir eiga auðvitað að vera í lagi, bæði á góðum tímum og erfiðum. Hin opinberu fjármál eiga að vera byggð á mjög traustum og gagnsæjum grunni og ákvarðanir sem teknar eru af fjárveitingavaldinu og löggjafanum eiga að ganga eftir.