140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:18]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Við tökum til umræðu frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2012. Þau hafa mörg hver verið okkur ærið erfið, sambærileg frumvörp á undanliðnum árum. Í þessari umræðu vil ég fara nokkuð almennt yfir þetta rauða frumvarp sem er vitaskuld af margvíslegum toga og margar tölur sem þar koma við sögu og á bak við þær tölur eru vitaskuld fólk og fyrirtæki sem við skulum ekki gleyma.

Að mati þess sem hér stendur er óumdeilt að náðst hefur gríðarlegur árangur í því að brúa bilið milli þess sem var í ríkisrekstri áður fyrr þegar gatið var ógnarstórt, upp á 215 milljarða kr., en er nú komið niður undir 18 milljarða kr. Þetta er óumdeilanlega mikill árangur og við heyrum einfaldlega nær alla erlenda sérfræðinga, held ég að ég geti fullyrt, vera sama sinnis og ég hér í pontu Alþingis, að árangurinn er óumdeildur og góður í þá veru að koma aga á ríkisfjármálin sem voru vel að merkja fyrir hrun agalaus. Framúrkeyrslan var gríðarleg og mæld í tugum milljarða, ekki bara á sviði heilbrigðismála heldur í fjárlögum almennt. Það er mjög mikilvægt út á við og inn á við að koma aga á ríkisfjármálin eins og best verður á kosið. Sá árangur er augljós. Strax var gripið til mjög róttækra aðgerða í ríkisfjármálum um mitt sumar 2009 og við erum að bera úr býtum þann árangur sem nú blasir við. Það var ekki sjálfgefið að grípa til þessara róttæku aðgerða strax nokkrum mánuðum eftir að hrunið skall á en það var gert og við sjáum árangurinn blasa við.

Það má spyrja sig hvaða lausnir voru í boði og nefndar hafa verið þrjár leiðir. Ég hef í sjálfu sér talað fyrir öllum þeirra, í mismiklum mæli þó. Það var hægt að sækja meiri tekjur, svo sem eins og með skattahækkunum sem hefur verið gert, en ég hef jafnframt goldið varhuga við því að sækja af auknum krafti til venjulegra heimila og fyrirtækja í því efni. Það var hægt og er enn hægt að skera niður og hagræða í ríkisrekstri og það hefur verið gert, og alveg frá miðju sumri 2009 hefur verið hægt að sækja fram í hagvexti til að breikka skattstofna og fá inn meiri tekjur fyrir ríkissjóð sem hann þarf vissulega á að halda.

Ég held hins vegar, frú forseti, að það hefði aldrei verið hægt að fara einungis eina af þessum leiðum til að stoppa í gat ríkissjóðs. Það hefði aldrei verið hægt að sækja einvörðungu fram með þriðju leiðinni og sækja meiri hagvöxt með því að gefa í í atvinnulífinu, það hefði aldrei dugað eitt og sér til að stoppa upp í það ógnarstóra gat sem blasti við landsmönnum á miðju sumri 2009. Atvinnulífið var einfaldlega það laskað vegna útlánaþenslunnar sem var við lýði árið fyrir hrun að það hefði ekki komist af stað með þeim krafti sem dugað hefði til, til að halda til baka hinum tveimur leiðunum, skattahækkunum og niðurskurði á ríkisútgjöldum. Ég tel óumdeilt að alltaf hefði þurft að grípa með einhverju móti til allra þessara þriggja leiða, hagræðingar í ríkisrekstri, tekjuauka og síðan hagvaxtar. Galdralausnirnar voru ekki til, það var ekki hægt að fara einungis eina þessara leiða heldur þurfti að grípa til þeirra allra, einfaldlega vegna þess að gatið var of stórt til að ein leiðin dygði. Allra síst hefði verið hægt að fara þá leið að minnka tekjurnar, lækka skatta og skera lítið sem ekkert niður í ríkisrekstri á þessum tíma og grípa einvörðungu til breiðari skattstofna. Ég held að það hafi verið óumflýjanlegt, frú forseti, að fara allar þessar þrjár leiðir. Hitt er meira og minna lýðskrum.

Við að fletta fjárlögum fyrir árið 2012, og reyndar líka fjárlögunum 2011 og 2010 ef út í það er farið, spyr maður sig hver þjónusta ríkisins eigi að vera. Ég held að Alþingi Íslendinga, fjárlaganefnd og þar til bærar aðrar fagnefndir Alþingis þurfi að spyrja sig, á þeim tímum sem nú eru uppi, hvar ríkið eigi að drepa niður fæti í þjónustu sinni. Á það að vera á öllum sviðum samfélagsins eins og við blasir í þessu ágæta fjárlagafrumvarpi þar sem ekkert virðist vera ríkinu óviðkomandi? Ég tel svo ekki vera.

Ég tel að þrjár leiðir séu færar í þessum efnum eins og í ríkisrekstrinum sem ég kom að áðan. Það er hægt að færa stóran hluta af þjónustu ríkisins yfir til sveitarfélaga. Hæstv. fjármálaráðherra nefndi að þau geta allt eins verið jafngild stjórnsýslustigin, ríki og sveitarfélög, og ég tel að hægt sé að fara jafnvel lengra en það, sveitarfélögunum í vil. Ég tel að margt af því sem kemur fram í fjárlagafrumvarpinu sé fullmiðstýrt og eigi betur heima í nærþjónustu sveitarfélaga. Ég tala þar t.d. um málefni aldraðra sem vitaskuld eru að fara yfir til sveitarfélaganna og þar með tel ég að heilsugæslan eigi að fara þangað líka sakir samlegðaráhrifa. Ég nefni framhaldsskólann, hluta af löggæslunni, hluta af vegagerð og svo mætti áfram telja. Reyndar mætti einnig skipta menningunni betur milli ríkis og sveitarfélaga því ef menn horfa t.d. til menningarsamninganna einna og sér, verjum við þar um 270 millj. kr. út á land á meðan bara örfá menningarfyrirtæki í Reykjavík fá á fjórða milljarð. Á fjórða milljarð fyrir Reykjavíkurborg, sem er vitaskuld höfuðborgin, en 270 millj. kr. út á land. Þetta eru ekki rétt hlutföll. Ég tel því að stór hluti af því sem er að finna innan þessarar bókar eigi betur heima hjá sveitarfélögunum og þau geti farið þar betur með fjármunina en ríkið hefur gert alla jafna. Þar vísa ég sérstaklega til agalausra ára upp úr aldamótunum 2000 þar sem farið var fram úr fjárlögum svo nam tugum milljarða kr., ekki síst í heilbrigðismálum.

Í þeirri fjárlagagerð sem verið hefur við lýði á undanförnum árum höfum við, frú forseti, varið störf. Það er vel. Við höfum séð á eftir um 440 störfum á vegum ríkisins, einkum og sér í lagi innan heilbrigðisþjónustunnar sem nemur um það bil 360 störfum. Það vekur mig til umhugsunar um hvort við höfum farið of geyst í niðurskurði á heilbrigðisþjónustunni sem er einhver sú viðkvæmasta í okkar rekstri. Hefðum við betur farið þar hægar? Ég tel svo vera. Ég tel að heilbrigðisþjónustan hringinn í kringum landið sé einfaldlega það viðkvæm að ef farið er inn fyrir grunninn í þeim efnum, sé illa og kannski ekki aftur snúið. Við horfum líka einfaldlega fram á aukna þjónustu og aukinn rekstur víða á landinu sakir uppbyggingar í margvíslegri starfsemi á næstu missirum og þá þarf stoðþjónustan, ekki síst í heilbrigðismálum, að vera fyrir hendi. Sú reynsla er augljós af t.d. uppbyggingunni fyrir austan.

Ég er líka mjög hugsi, frú forseti, við lestur þessa fjárlagafrumvarps og fjárlagafrumvarpanna sem koma þar á undan, hvernig ríkisvaldið skilgreinir grunnþjónustu. Ég tel að ríkið eigi að deila verkefnum meira út til sveitarfélaganna og líka til einstaklinga vegna þess að þegar fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2012 er lesið í þaula sýnist mér ríkinu vera nánast ekkert óviðkomandi og það sé einfaldlega í allt of mörgum verkefnum. Auðvitað eigum við fyrst og síðast að verja grunnþjónustuna en höfum við gert það? Nei, við höfum líka varið stoðþjónustuna og marga þá þjónustu sem ríkið á e.t.v. ekki að vera í af þeim þrótti sem það hefur verið í á undangengnum árum. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að ríkið skilgreini á komandi missirum í hverju það á sannarlega að vera og gera það þá vel en láta hin verkefnin í hendur sveitarfélaga annars vegar og einstaklinga hins vegar. Það er ekki sjálfgefið að ríkið eigi að sinna öllum verkefnum í þessu samfélagi. Það hefur einfaldlega ekki lengur efni á því.