140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:31]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágætt og greinargott svar. Ég er þeirrar skoðunar að við þær aðstæður sem voru upp komnar við fjárlagagerðina árið 2009 hefði verið skynsamlegt að fara þessa leið. Það hefði dregið mjög úr álaginu á atvinnulífið og flýtt efnahagsendurreisninni.

Hv. þingmaður nefndi að hv. þingmenn og aðrir hefðu haft af því áhyggjur að þessi aðgerð, þ.e. að taka til ríkisins þá peninga sem það sannarlega á inni í lífeyrissjóðunum, væri sambærileg við það að pissa í skóinn sinn, eins og hv. þingmaður orðaði það, væntanlega vegna þess að þar með væri verið að taka peninga sem nota ætti síðar, og nota þá fyrr. Ég tel reyndar að aðstæður hafi verið þannig að það hefði verið skynsamlegt. Í framhaldi af þessu hefði ég áhuga á því að heyra álit hv. þingmanns á frétt í Morgunblaðinu í dag þar sem sagt er frá því að samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2012 eigi að loka fyrir þá möguleika að leggja allt að 4% tekna launþega í svokallaðan séreignarsparnað. Þess í stað verður hlutfallið 2%. Vegna þessarar aðgerðar mun skattheimta ríkisins aukast um 1,4 milljarð. Þetta mun auðvitað hafa þau áhrif að það dregur úr sparnaði til lengri tíma. Þetta er ákveðin útfærsla á þeirri leið sem rædd var af hálfu Sjálfstæðisflokksins. Ég tel þetta reyndar ekki heppilega leið, ég held að sú leið sem við lögðum til hefði verið heppilegri, en ég hefði áhuga á því að heyra skoðun hv. þingmanns á henni.