140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:47]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Reyndar er það þannig að hagvaxtarspáin hjá Seðlabanka Íslands fyrir næsta ár er 1,6%, hún er það lág, því miður. Ég vildi óska að hún væri yfir 2%, það væri til hins betra en hún er ekki nema 1,6%. Það er einmitt vandinn og það sem manni finnst svo sárgrætilegt. Tækifærin í kringum okkur eru næg. Í þessari umræðu hefur verið vitnað til þess að ýmsir erlendir sérfræðingar hafi lokið lofsorði á árangur okkar Íslendinga í að fást við kreppuna. Hvað er það tvennt sem menn benda sérstaklega á? Það er annars vegar það að við Íslendingar ákváðum að nota ekki ríkissjóð til að bjarga bönkunum. Hins vegar að gjaldmiðillinn er sveigjanlegur. Það tvennt hefur skipt sköpum. En síðan stendur þetta eftir: Hversu vel treysta fjárfestar íslenskum stjórnvöldum til að koma með peninga hingað og fjárfesta? Við höfum séð alþjóðakannanir um traust á pólitískum stöðugleika sem hér ríkir. Það er ekki góður dómur.

Í sjávarútveginum höfum við líka séð að fjárfestingin er ekki nema lítill hluti af þeirri fjárfestingu sem verið hefur að meðaltali síðustu tíu ár og jafnvel lengur. Hvers vegna er þessi vandi uppi? Vegna þess að hér í þinginu og hjá ríkisstjórninni hefur verið alveg gríðarleg óvissa og hringlandi um framtíðarskipulag greinarinnar. Það sárgrætilega við það, svo ég endurtaki það, frú forseti, er að búið var að ná sátt á milli allra um hvernig á þessu skyldi halda. Og það er hörmulegt að ekki skuli hafa verið hægt að halda áfram á þeirri braut.

Við Íslendingar erum svo heppnir að búa við þannig aðstæður að við getum unnið okkur miklu hraðar og eigum að vinna okkur miklu hraðar úr þeim vanda sem við erum í en flestar aðrar þjóðir. Af hverju? Vegna þess að við búum í landi sem býr yfir alveg gríðarlegum auðlindum. Þau tækifæri sem við eigum í orkuöfluninni, í hafinu og í okkur sjálfum, ferðamannaiðnaðinum o.s.frv., eru nærri því óþrjótandi. Ég hef alla ástæðu til að vera bjartsýnn, en það þarf að breyta mjög mörgu í stjórnarstefnunni (Forseti hringir.) þannig að þetta verði nýtt.