140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:51]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Jafnvel hörðustu sæköppum geta fallist hendur þegar þeir horfa framan í þessa ríkisstjórn, það er vandinn. Það er nægur vandi og næg óvissa, eins og hæstv. fjármálaráðherra benti á og ég veit að hann hefur þekkingu á því að sækja sjóinn, að ekki sé bætt við pólitískri óvissu, fullkominni óvissu um allt rekstrarumhverfið. Hvað þýðir það, frú forseti? Það þýðir að ógerningur er fyrir þá sem um véla í þessum rekstri að ákveða hvort þeir eigi að fjárfesta eða ekki, það er óvissa um hver afraksturinn verður og hvort þeir haldi yfir höfuð eignum sínum. Þegar svo er komið þá hljóta menn að halda að sér höndum. Þannig gerist það.

Þetta þurfum við að rjúfa og það liggur líka fyrir í orkunýtingunni, svo við tökum dæmi. Ef þessi ríkisstjórn situr áfram, hvernig verður þá t.d. haldið á þeim möguleikum sem eru í neðri Þjórsá? Þeim gríðarlega hagkvæmu virkjunarkostum sem þar eru? Þessi ríkisstjórn sem hangir á eins manns meiri hluta býr við þann vanda að mjög erfitt verður að ná meiri hluta hjá ríkisstjórninni fyrir því að fara í slíkar framkvæmdir. (Forseti hringir.) Það skiptir því máli hvernig haldið er á, það skiptir máli hvernig pólitíska staðan er.