140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:58]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Guð láti á gott vita en vandinn er bara þessi: Hagspárnar frá Seðlabanka t.d. hljóða upp á 1,6% hagvöxt á næsta ári. Þegar menn skoða einn helsta drifkraft þessa hagvaxtar, spár um einkaneyslu annars vegar og fjárfestingar hins vegar, liggur einmitt fyrir að sú einkaneysla sem hefur verið að vaxa á síðustu mánuðum er drifin áfram með hætti sem ekki er sjálfbær vegna kjarasamninga sem voru of háir, sem voru framhlaðnir, vegna vaxtaendurgreiðslna og vegna þess að fólk hefur tekið út úr séreignarsjóðunum. Það er vandinn.

Hvað varðar þátt ríkisstjórnarinnar í fjárfestingum þá verður að segjast eins og er að ég er ekki sammála hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur. Ég tel að ríkisstjórnin hafi bæði valdið vandamálum og óvissu, ég nefni þar sérstaklega sjávarútveginn en líka umræður og ógætileg ummæli margra hæstv. ráðherra um skattamál, þjóðnýtingu og annað slíkt. Ég tel líka að ekki hafi verið nægilegur samhugur innan ríkisstjórnarinnar um þær aðgerðir sem mundu alveg örugglega (Forseti hringir.) og með fullvissu leiða til aukinna fjárfestingu og hraðari uppbyggingar.