140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:05]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar að hagvöxtur upp á 6–7% sé mjög ólíklegur og jafnvel ekki æskilegur. Ég held að hagvöxtur á Íslandi, miðað við þær náttúruauðlindir sem við búum að, miðað við það menntastig sem þjóðin hefur komist á, miðað við þá vísindaþekkingu sem hér er til staðar, þá eigi að vera hægt að gera þá kröfu að hagvöxtur verði einhvers staðar um og yfir 3% á ári. Hann þarf að vera það. Þjóðinni er enn að fjölga og við þurfum a.m.k. 1,5% hagvöxt á ári, bara til að taka á næstu árum á móti nýjum árgöngum inn á vinnumarkaðinn. Einhvers staðar á bilinu rúmlega 3% og upp í 4% þarf hann að vera og það eru tækifæri til að ná því. Aðstæðurnar eru þannig og við erum í færum til að ná þeim árangri. Við eigum ekki að sætta okkur við það að niðurstaðan á árinu 2012 verði einungis hagvöxtur upp á 1,6%, hjá þjóð sem býr við öll þau tækifæri sem við gerum. Ég held að það sé hægt að ná góðri samstöðu í þinginu um ýmsar aðgerðir sem þarf að ráðast í til að koma fjárfestingunni af stað. En ég held að það verði frekar á forsendum þingsins (Forseti hringir.) en ríkisstjórnarinnar, því miður, frú forseti.