140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:19]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það veit ég að hæstv. fjármálaráðherra vildi óska þess að þar sem er innskattur væri alltaf útskattur, en því miður er það náttúrlega ekki svo.

Það er auðvitað sjónarmið hjá hv. þingmanni að skattlagning eins og virðisaukaskattur lendi á endanum á neytanda, en hún gerir það í öllum atvinnugreinum öðrum en þessari atvinnugrein. Það er engin ástæða til að undanþiggja bankana sérstaklega álögum umfram aðra og eðlilegt að einhvers konar ígildi komi í staðinn fyrir virðisaukaskattsundanþáguna. Menn geta svo rætt um útfærslu á því.

Ég vil kannski nota tækifærið af því hv. þingmaður er áhugamaður um ríkisfjármál, og velta aðeins áfram þessari umræðu um hækkanir á gjöldum og spyrja hvort hv. þingmaður hafi ekki áhyggjur af því að við höfum verðbólguvætt ríkisfjármál okkar og stuðlað að stöðugum ofvexti í útgjaldakerfi okkar með því að við höfum tamið okkur ákveðna orðræðu um þau mál, til að mynda þegar framlög til Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga í frumvarpinu eru 840 millj. en voru 844 millj. í fjárlögunum í fyrra, köllum við það stórkostlegan niðurskurð, og þegar framlög til Landspítala – háskólasjúkrahúss hækka úr 32.917 millj. í 35.630 millj. á milli ára, köllum við það stórkostlegan niðurskurð.

Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því að slík orðræða um ríkisfjármál sé beinlínis til þess fallin að belgja út útgjöld ríkisins með sjálfvirkum aðferðum við að uppreikna ímyndaðar kostnaðaraukningar út um allt kerfi sem leiðir til þess að við eigum við sífellt meiri útgjaldavanda að stríða í ríkisrekstrinum? (Forseti hringir.)