140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:22]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka fram að hann vill byggja á raunstærðum. Þá vitum við líka að það er ekki skoðun hv. þingmanns að í fjárlagafrumvarpinu sé verið að gera ráð fyrir skattahækkunum á áfengi og tóbak og ýmsan annan varning sem er látinn taka verðlagshækkunum á milli ára en hækkar ekki að raungildi. Þá er það á hreinu og það er gott fyrir umræðuna.

Ég held að í útgjaldaumræðunni sé líka mikilvægt að við styttum ekki gömlu setninguna. Þegar við sögðum að skorið hefði verið niður einhvers staðar var venja okkar að taka fram að það væri niðurskurður að raungildi. Ég held að það sé mikilvægt að halda því til haga í umræðunni að í nær öllum þeim tilfellum þar sem talað er um niðurskurð í fjárlögunum er um að ræða aukningu í krónutölu frá fyrra ári. Það er nú þannig að ýmis heimili og fyrirtæki í landinu kalla það ekki niðurskurð að þurfa að hafa útgjöld sín að krónutölu innan sömu marka eins og á fyrra ári, en vissulega er það samdráttur að raungildi og getur haft alvarlegar afleiðingar. Ég held t.d. að það hafi alvarlegar afleiðingar á Landspítalanum og að fjárlaganefnd eigi að fara vel yfir það.

Ég held að við þurfum að varast þessa sjálfvirku uppreikninga á öllum útgjöldum og að við þurfum a.m.k. að taka þar inn kröfu um framleiðniaukningu, vegna þess að við krefjumst þess á öllum sviðum samfélagsins að menn nái betri árangri frá ári til árs, að menn nýti hlutina betur, að menn kaupi inn með hagkvæmari hætti. Öll hagkerfi heimsins byggjast á því. Þess vegna er ekkert sjálfsagt að uppreikna bara gömlu (Forseti hringir.) útgjöldin með öllum þeim vísitölum sem menn hafa fundið upp, og gera engar sjálfsagðar og eðlilegar hagræðingarkröfur á milli ára.