140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:25]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Vegna ummæla hv. þm. Helga Hjörvars um hagvöxt vil ég segja að ég fagna í fyrsta lagi því sem hér var sagt varðandi framleiðni og mikilvægi þess að framleiðni sé sem hæst. Það er auðvitað drifkraftur í hagvexti.

Síðan var því haldið fram að það væri allt að því óábyrgt að halda því fram að íslenskt hagkerfi gæti verið að vaxa um meira en 3% á ári. Þá er í fyrsta lagi til að taka að Íslendingum er enn að fjölga, ólíkt því sem er að gerast í ríkjum Evrópu. Það að fleiri vinnandi hendur koma inn á vinnumarkaðinn þýðir, ef til eru störf og tækifæri fyrir þær hendur að taka til og vinna, að þjóðarframleiðslan mun aukast frá því sem áður var. En þá þurfa auðvitað að vera tækifæri. Tækifæri myndast með því að það er fjárfest, fjárfestingin leiðir til starfa og störfin leiða til hagvaxtar. Sú staðreynd ein og sér, þegar borið er saman íslenskt hagkerfi og hagkerfi Evrópu, bendir til þess að við þurfum, það er ekki bara æskilegt, að ná meiri hagvexti heldur en gengur og gerist í ríkjum Evrópusambandsins sem dæmi.

Í öðru lagi er augljóst þegar menn skoða íslenskt hagkerfi að hér eru tækifæri fyrir okkur sem eru ólík og umfram þau tækifæri sem flestar aðrar þjóðir búa við. Við eigum tækifæri á því að auka orkuframleiðslu, þá hreinu orku sem við framleiðum, til þess að nota í iðnaðaruppbyggingu. Það er tækifæri sem er umfram það sem flestar aðrar þjóðir búa við. Á sama tíma byggir grunnurinn að íslensku efnahagslífi, sjávarútvegurinn, á endurnýjanlegri auðlind. Sé vel með hana farið getur hún vaxið og skilað enn meiri verðmætum.

Bara þau atriði sem ég taldi hér upp, fólksþróunin og þessar tvær mikilvægu auðlindir, gefa tækifæri og um leið kröfu á því að hagvöxtur á Íslandi (Forseti hringir.) sé góður og nægur til þess að hér sé hægt að bjóða upp á mjög góð lífskjör.