140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:15]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég skal gjarnan rökstyðja mál mitt betur. Varðandi lyfin þá höfum við tekið upp strangari viðmið við innkaup á sérmerktum lyfjum. Núna þurfa að fylgja klínískar leiðbeiningar frá yfirlæknum um kaup á lyfjum. Það þurfa fjórar af fimm viðmiðunarþjóðum okkar að hafa tekið upp lyfið, meðal þeirra er Bretland sem er eitt afturhaldssamasta landið í þessum efnum og við höfum ekki áður miðað okkur við. Síðan er það líka eitt af skilyrðunum núna að það verður að liggja fyrir kostnaður og ábatagreining frá NICE-stofnuninni, sem þykir líka afturhaldssöm og gerir ekki kostnaðar- og ábatagreiningu á öllum lyfjum, þannig að þetta er takmarkandi þáttur.

Síðan er líka eitt í viðbót sem háir okkur í þessum efnum að við höfum ekki sama aðgang að lyfjum í gegnum lyfjarannsóknir og lyfjaprófanir og aðrar þjóðir bæði vegna fjarlægðar og smæðar landsins. Það eina sem ég er að segja er að maður heyrir þær raddir úr heilbrigðisgeiranum að vegna þessara skilyrða sem hafa fært okkur aftar á merina hvað þetta varðar séum við farin að sjá lakari árangur í meðferð alvarlegra sjúkdóma á Íslandi en áður. Þetta finnst mér alvarlegt vegna þess að ég held að Íslendingar vilji þetta ekki. Ég vil þetta ekki. Við státum af því að vera rík þjóð og segjumst vera rík þjóð og þá verðum við að taka þessa umræðu í þessum sal. Ég kalla það alvarlega pólitík, já, og er kannski dálítið stóryrtur þegar ég segi pólitík lífs og dauða en er hún eitthvað annað en það? Þetta er einfaldlega um það hvort við viljum að árangur t.d. í krabbameinslækningum á Íslandi sé til jafns við það sem best gerist.