140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:17]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Það er vissulega rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni að við höfum tekið upp önnur viðmið við innleiðingu þessara svokölluðu S-merktu lyfja eða sérmerktu lyfja. En það er ekki, og ég fullyrði það, verið að auka áhættu í meðferð sjúklinga eins og hv. þingmaður orðaði hér. Ég óska þá eftir því að hann færi okkur þau gögn í hendur, því að ef svo er að við séum að stefna lífi og limum fólks í stórkostlega hættu er það auðvitað alvarlegt mál, þá er þetta bara grafalvarlegt mál sem hv. þingmaður er að fjalla hér um.

Ég minni á orð forstjóra Landspítalans, Björns Zoëga, ef ég man rétt, í sumar og stjórnenda Landspítalans að þær aðgerðir sem gripið hefur verið til í fjárlögum undanfarinna ára hafi þó ekki komið niður á þjónustu Landspítalans enn eins og búist var við. Það eru þá nýjar fréttir fyrir mig ef þær aðgerðir sem við höfum gripið til og það aðhald sem við höfum þurft að sýna í rekstri ríkisins séu komnar á það stig að fólk fái ekki lengur þá meðferð sem það á skilið og hefur verið að fá við alvarlegum sjúkdómum. Það eru fréttir sem ég hef ekki áður fengið í þessari umræðu og ég tala nú ekki um ef það er farið að skipta máli um hvort fólk lifir eða deyr. Ég óska eftir því að hv. þingmaður færi okkur þau gögn sem við þurfum í því sambandi. Ég ætla ekkert að efast um hans orð. Hann hýtur að hafa eitthvað til síns máls í þessu til að rökstyðja þau með einhverjum hætti. Ég hef hins vegar ekkert slíkt og ég óska eftir því að mér verði færð slík gögn.