140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:19]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég hélt engu öðru fram en að þetta væri grafalvarlegt mál. Það var megininntakið í því sem ég var að segja. Augu mín hafa verið opnuð í þessum efnum frá yfirlæknum á Landspítalanum og mér hafa verið kynnt rökstudd gögn sem benda til þess og ég get sent hv. þingmanni um að við séum að dragast aftur úr hvað varðar meðferð á alvarlegum sjúkdómum vegna nýrra viðmiða í innkaupum á sérmerktum lyfjum.

Ég sagði í ræðu minni að þetta fyndist mér alvarlegt og við virðumst deila þeirri skoðun, ég og hv. þingmaður, að þetta sé alvarlegt ef rétt er. Ég hvet til þess og hvatti til þess í ræðu minni að við yfirferð fjárlagafrumvarpsins yrði þetta sérstaklega skoðað hvort við séum að dragast aftur úr í þessum efnum. Ég vona að hv. þingmaður sé sammála mér um það að við þurfum að gera það.

Tölurnar um góðan árangur Íslendinga í meðferð á alvarlegum sjúkdómum eru tíu ára gamlar og menn hafa gjarnan veifað þeim í þessari umræðu. Þau sjónarmið sem ég hef heyrt úr Landspítalanum benda mjög til þess að ef þessar tölur yrðu uppfærðar yrði veruleikinn dálítið mikið öðruvísi.

Svo fannst mér hv. þingmaður kannski aðeins rugla saman annarri umræðu, kannski ekki rugla saman en a.m.k. finnst mér mikilvægt að gera þar greinarmun á, varðandi þjónustu Landspítalans. Við erum náttúrlega að tala hér um tvo liði, annars vegar innkaup Sjúkratryggingastofnunar á sérmerktum lyfjum og hins vegar Landspítalann. Ég fór einmitt yfir það í ræðu minni að það hafi tekist alveg ágætlega að skera niður á Landspítalanum og skera niður umtalsvert. Landspítalinn hefur náttúrlega þurft að skera niður gríðarlega á undanförnum árum og þess vegna finnst mér ástæða til að leggja við hlustir núna þegar forstjóri Landspítalans segir að (Forseti hringir.) lengra verði ekki gengið.