140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:22]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kem upp í seinni ræðu þar sem ég náði ekki að klára allt sem ég vildi fara yfir í fyrri ræðu minni. Það sem stóð kannski einna helst út af borðinu var umfjöllun um niðurskurð í heilbrigðiskerfinu og þá gagnrýni sem það hefur fengið víða í fjölmiðlum og út um allt land. Á bls. 10 í skýrslu um ríkisbúskapinn fyrir árin 2012–2015 sem er fylgirit með fjárlagafrumvarpinu er farið yfir þá aðferðafræði sem stjórnvöld hafa fylgt við að útfæra aðgerðir til aðlögunar. Það segir, með leyfi forseta:

„Á útgjaldahlið hefur verið reynt eftir fremsta megni að hlífa velferðarþjónustu, menntamálum og löggæslu en ná fram meiri hagræðingu í almennri stjórnsýslu og rekstri ríkisins.“

Nú bið ég þá sem eru að fylgjast með þessari umræðu að velta fyrir sér af hverju fjöldi fólks út um allt land telur að það sé einmitt ekki verið að gera þessa hluti. Það er ekki langt síðan lögreglumenn fordæmdu þann niðurskurð sem er boðaður á næsta ári. Ég held að ekki þurfi að fara yfir það í löngu máli hversu óánægðir þeir eru með kjör sín og þann niðurskurð sem hefur átt sér stað í löggæslumálum þjóðarinnar. Við lögðum til í fyrra við fjárlagagerðina fyrir árið 2011 að bætt yrði verulega í þennan málaflokk en ríkisstjórnin hafnaði því og það var fellt hér í atkvæðagreiðslu.

Síðan er talað um að hlífa velferðarþjónustu. Fyrir ári síðan var stofnað til mótmælafunda úti um allt land vegna fyrirhugaðs niðurskurðar í heilbrigðismálum og heilbrigðisstofnunum víðs vegar um landið, fjölmennir borgarafundir þar sem samstaða íbúa alls staðar á landinu kom mjög skýrt fram. Það tókst að lækka þann boðaða niðurskurð á einhvern hátt en það sem út af stóð og ég gagnrýndi harðlega var að stefnan sem kom fram um leið og fjárlagafrumvarpið var lagt fram var enn þá til staðar. Það átti í rauninni að skera minna niður á þessu ári, 2011, en færa niðurskurðinn á árin 2012 og 2013. Þannig átti að skera niður um 25% hjá Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, 10% voru skorin niður fyrir árið 2011 en 7,5% eiga að koma til framkvæmda núna í þessum fjárlögum og svo á næsta ári. Þessu hefur verið mótmælt harðlega. Ég held að Heilbrigðisstofnun Þingeyinga sé í rauninni besta dæmið um það hvernig er verið að gjörbreyta heilbrigðiskerfi landsmanna í gegnum fjárlagafrumvarpið sjálft.

Í viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og heimamanna kom fram að standa ætti vörð um opinbera þjónustu. Þetta er viljayfirlýsing sem gerð var í maí síðastliðnum. Heimamenn lögðu þann skilning í hana að það ætti ekki að skera meira niður. En nú er boðaður aukinn niðurskurður sem ég fullyrði að er þvert á gefin loforð til Þingeyinga og þeirra sem sækja þjónustu á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga. Sama má segja um heilbrigðisstofnanir Sauðárkróks, Austurlands, Vestmannaeyja og víðs vegar um land.

Þegar við skoðum þessar fullyrðingar, að það hafi verið reynt að hlífa velferðarþjónustunni og jafnvel aukið í þann málaflokk, kemur í ljós að útgjöld vegna aukins atvinnuleysis vega þar þyngst, þ.e. að þar sem ríkisstjórninni hefur ekki tekist að koma á þeim hagvexti sem hún boðaði í skýrslunni frá því í júní 2009 þarf að leggja meira í Atvinnuleysistryggingasjóð. Ég er ekki sammála því og tel að það sé röng nálgun að ríkisstjórnin eigi að telja sér þetta til tekna, að þetta sé árangur. Ég held að sé ekki árangur í sjálfu sér að hér sé aukið atvinnuleysi, að það sé ekki árangur að við náum ekki að örva hagvöxtinn, að það sé ekki árangur að verðbólgan hækki eins og raun ber vitni, að hér séu um 8% landsmanna að glíma við veruleg vanskil.

Þetta eru staðreyndir, þetta eru blákaldar staðreyndir sem skautað er yfir í þessu fjárlagafrumvarpi. Það fer jafnvel enn meira í taugarnar á mér að í einhvers konar grafi sem fylgir hér með, sem á að sýna aukningu til velferðarmála en sýnir reyndar að það hafi orðið lækkun hvað heilbrigðismálin varðar, er árið 2011 ekki tekið með. Í öllum öðrum skýrslum er árið 2011 tekið með, jafnvel 2012. Af hverju reyna menn að fegra stöðuna? Er það ekki akkúrat sem við þurfum núna að fara að tala um hlutina eins og þeir eru? Reyndar er minnst á það í þessari skýrslu og mér finnst gott að sjá það á prenti frá ríkisstjórninni að það hafi orðið talsverð umræða á Íslandi um hvernig meta skuli árangur í ríkisfjármálum og einnig hvort viðunandi árangur hafi náðst eftir hrun. Hér segir orðrétt, virðulegi forseti:

„Það sem flækir þá umræðu talsvert er að mismunandi aðilar notast við ólíkar viðmiðanir við mat á og í framsetningu á halla ríkissjóðs.“

Ég tek undir hvert einasta orð sem þarna stendur. Svo segir áfram:

„Leiðir þetta til þess að oft styðjast menn við ósambærilega grunna í umfjöllun sinni um ríkisfjármál. Það er því afar mikilvægt að gæta að því hver viðmiðunin er.“

Svo er reynt að útskýra við hvaða viðmiðun ríkisstjórnin miðar sjálf.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gaf út skýrslu í mars 2009 þar sem einmitt var mælst til þess að komið yrði á aga í ríkisfjármálum og þar segir, með leyfi forseta:

„Íslenska fjárlagakerfið hentar illa til að ná samræmdum árangri í fjármálakreppunni. Við venjulegar kringumstæður hefði í skýrslu sem þessari verið lagt til að menn breyttu stefnunni í fjármálaáætlanagerð smám saman.“

Síðan er lagt til að þessu verði umbylt við fyrsta tækifæri, þetta er í mars 2009. Það hefur ekkert verið gert sem lagt er til í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til að ná fram þessum aga í ríkisfjármálum nema að ríkisstjórnin sjálf virðist vita af vandanum sem þó er ágætt. Þeir segja hér, með leyfi forseta:

„Engin stofnun er ábyrg fyrir því að stýra og hafa yfirsýn yfir störf ríkisstjórnar né það sem skiptir máli fyrir markmið fjárhagslegs stöðugleika eða fyrir opinbera geirann þar sem aukning skulda veldur aðkallandi fjárhagslegri áhættu.“

Þá er í nokkuð löngu máli farið yfir þau atriði sem ríkisstjórnin þurfi að grípa til til að ná fram þessum aga. Hér er nefnt að það þurfi að endurvekja hlýðni við fjárlög til að tryggja að markmið fjárlaga nái fram að ganga. Svo er talað um að það þurfi að auka völd Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu. Því miður hefur núverandi ríkisstjórn stigið í þveröfuga átt.

Ég ætla að láta þessu lokið að sinni. Ég þakka þeim sem tóku þátt í þessari umræðu. Ég vil óska nýskipuðum formanni fjárlaganefndar til hamingju með embætti hennar og vonast til þess að eiga jafngóð samskipti við hana og ég átti við (Forseti hringir.) fráfarandi formann. Þetta verður væntanlega allt tekið fyrir á vettvangi fjárlaganefndar en það er ljóst að það eru afar mörg atriði sem þarf að bregðast við og breyta.