140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:39]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef þingmaðurinn hefði bara gert sér far um að lesa tillögur okkar framsóknarmanna frá því í fyrra þá vissi hann að við lögðum til að heilbrigðisstofnanir um allt land mundu taka á sig jafnan niðurskurð. Ég held að heilbrigðisstarfsmenn hvar sem er hafi lýst því yfir að þeir væru til í að taka á sig niðurskurð. Hins vegar höfnuðu þeir því að þurfa að taka á sig meira en aðrir. Við lögðum það reyndar líka til að Landspítalanum yrði hlíft og aðhaldskrafan þar yrði sú sem hún á endanum varð. En við bentum líka á tekjuleiðir sem ekki var tekið undir í þingsal og þeim hafnað. Við höfum líka margítrekað að við viljum koma hagkerfinu af stað með því að standa ekki í vegi fyrir erlendri fjárfestingu eins og þessi ríkisstjórn hefur gert.

Hæstv. forsætisráðherra sagði fyrir um ári síðan að Þingeyingar þyrftu að fara að búa sig undir stórfellda atvinnuuppbyggingu. Hæstv. iðnaðarráðherra sagði sex mánuðum síðar að þá væri komið að því, loksins væri komið að Þingeyingum í atvinnuuppbyggingunni. Síðan eru liðnir sex mánuðir og ekkert gerist. (HHj: Er ekkert að gerast …?) Í rauninni hefði verið hægt að fara af stað með framkvæmdir í Þingeyjarsýslum fyrir um tveimur árum — þremur árum, er mér bent á utan úr sal. Og jafnvel bara ein slík fjárfesting mundi skila hagvexti upp í þær tölur sem ríkisstjórnin sjálf setti sér (Forseti hringir.) að hún mundi ná á þessu ári en hefur ekki náð.