140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:41]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson flutti ræðu eins og ekkert hefði gerst við hrunið. Það er búið að gleyma því að 20% af tekjum, fimmta hver króna, tapaðist haustið 2008. Helmingurinn var tekjulækkun, hitt hefur verið vaxtagreiðslur og við höfum verið að bregðast við því. Við höfum gert það með fjölbreyttum hætti eins og hér hefur komið fram. Það er rétt sem við höfum haldið fram að tekist hefur að mörgu leyti að verja velferðina. Það þýðir ekki að ekki hafi orðið niðurskurður í rekstri velferðarhlutans heldur að við höfum látið þann hluta sæta minni niðurskurði. Við höfum náð því fram að meiri jöfnuður hefur orðið, en mikill ójöfnuður hafði orðið í aðdraganda hrunsins. Við höfum varið betur lægstu laun og bætur en þeirra sem hafa meira. Ég held að þetta sé það sem skiptir miklu máli.

Varðandi heilbrigðiskerfið þá er verið að tala um að fjárlög hafi þar ráðið. Það voru sett lög árið 2007 um heilbrigðisþjónustu og allt það sem hefur verið gert þar er unnið samkvæmt þeim lögum. Ég hvet hv. þingmann til að lesa þau lög. Það gildir um þjónustuna um allt land og mat á henni — þrjár sendinefndir eru búnar að fara og sú þriðja er raunar í gangi núna að meta hvað er eðlileg þjónusta á hverju svæði. Það er búið að fara í heimsókn á allar þessar stofnanir. Ráðherra hefur því miður ekki komist á þær allar sjálfur.

Þingeyingar hafa lækkað, það er alveg hárrétt og auðvitað full ástæða til að skoða það. Á verðlagi 2010 hafa þeir verið með um 1.067 millj. kr. árið 2005, voru komnir í 923 millj. kr. 2010 og verða settir niður í 840 millj. kr. árið 2012.

Það er alveg rétt líka sem hefur komið fram að viljayfirlýsing er um að verja þá þjónustu sem nauðsynleg er þegar til uppbyggingar kemur og á það verður að sjálfsögðu að leggja mat. Það er það sem þarf að gera.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Átti enginn (Forseti hringir.) niðurskurður að eiga sér stað annar en þessi flati lági niðurskurður og ef einhver, (Forseti hringir.) hvar átti hann þá að koma niður?