140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:46]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég biðst undan því að verið sé að kenna starfsfólki ráðuneytisins um það sem gert er. Ég skal standa við það sem við gerum. Það er á ábyrgð ráðherra og það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður segir að niðurskurðurinn í heilbrigðiskerfinu á síðastliðnum árum er að sjálfsögðu á ábyrgð ríkisstjórnarinnar.

Það sem mér finnst skipta mestu máli er að ræða það hvaða þjónustu er verið að bjóða á hverjum stað og hversu góð hún er og hvernig við getum tryggt það öryggi og þá þjónustu sem þarf að vera á landinu öllu. Það er verið að vinna í því eins heiðarlega og hægt er, endurmeta stöðuna vegna íbúaþróunar, vegna bættra samgangna, vegna nýrra krafna í sambandi við heilbrigðismál og þess hvað er mögulegt á ólíkum svæðum. Allt þetta er í skoðun og hefur verið unnið afar faglega með fullt af aðilum sem koma að þeirri vinnu, nú síðast starfshópi sem leiddur er af ráðuneytisfólki, þ.e. nýjum ráðuneytisstjóra sem er einn af fyrrverandi fjármálastjórum Landspítalans, síðan með læknum og þar á meðal forstöðumanni Landspítalans, forstöðumanninum á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, fulltrúa frá Egilsstöðum og ég hef nefnt áður með alþjóðlegum hópi sem er að endurmeta heilbrigðisþjónustuna.

Það er rétt sem hv. þingmaður sagði áðan. Heilbrigðisþjónustan á Íslandi hefur verið í fremstu röð og hún mun verða það áfram. Ég held að það skipti mjög miklu máli að við setjum ekki samasemmerki á milli þess að þó að við þurfum að aðlaga þjónustuna að nýju þurfi þjónustan hér að verða eitthvað lakari en hún hefur verið. Við munum tryggja að svo verði ekki.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði að allir hafa tekið á sig kaupmáttarskerðingu og ég ætla ekki að gera lítið úr því. Það þýðir ekki að við höfum ekki varið láglaunahópana. Sumir af þeim eru betur stæðir eftir hrun en áður.

Það er athyglisvert varðandi vanskilin, en ég ætla ekki að mæla þeim bót á neinn hátt, að 16 þúsund af þeim 25 þúsundum sem eru núna í vanskilum voru það fyrir hrun. Það segir okkur heilmikið um hvernig ástandið var. (Forseti hringir.)

Ég hefði viljað heyra betur frá hv. þingmanni svar við seinni spurningunni: Hvar hefur hann séð tækifæri til að draga úr kostnaði í kerfinu? Það er (Forseti hringir.) auðvelt að benda á hvað á ekki að gera en það væri athyglisvert að fá að heyra meira um hvað ætti að gera.