140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[19:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni fyrir ágæta ræðu, sem var reyndar önnur ræða hans í dag. Ég var eiginlega sammála honum um allt, líka um nauðsyn hagvaxtar, ekki spurning, en það var eitt atriði sem ég hjó eftir og það var þegar hann talaði um 3,5% kröfu í útreikningum lífeyrissjóðanna. Þetta er viðmiðun. Það er þannig að þegar lífeyrissjóður er gerður upp eru notaðir 3,5% raunvextir til þess að ekki sé verið að mismuna sjóðfélögum eftir því hvað þeir eru gamlir og hvenær þeir eru komnir á lífeyri og annað slíkt þannig að þeir sem eru ungir séu jafnsettir þeim eldri. Þetta eiga að vera nokkurn veginn meðalvextir, raunvextir sem lífeyrissjóðirnir geta fengið yfir allan starfstímann og það hefur verið þannig undanfarna þrjá, fjóra áratugi. Núna horfir illa við því að sú kyrrstaða sem hæstv. ríkisstjórn er að stefna að leiðir til þess að við fáum ekki þessa raunvexti. Það mun þýða að við þurfum annaðhvort að hækka iðgjaldið, sem atvinnulífið getur varla borið og síst af öllu launþegar, eða lækka réttindin, sem er ekki gott fyrir það fólk sem er lífeyrisþegar og er ekki kannski allt tekjuhæsta fólkið í landinu, eða hækka ellilífeyrisaldurinn og ég mundi nú leggja til að menn færu þá leið ef ekki tekst að ná okkur upp úr þessari kyrrstöðu.