140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[19:17]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það eru ekki fram undan neinar skattahækkanir aðrar en þær sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur sjálfur sagt að hann sé í reynd reiðubúinn til að taka undir. Í fyrsta lagi aukin gjaldtaka af náttúruauðlindum í hafi, það hefur alltaf verið stefna Sjálfstæðisflokksins að ná sátt sem m.a. fælist í því. Er það ekki rétt hjá mér? Í öðru lagi tók formaður Sjálfstæðisflokksins undir það hér í gær í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra að bankarnir græddu óhóflega og hann skildi það ákaflega vel að fólkið í landinu vildi fá eitthvað af þeim hagnaði til sín. Hæstv. fjármálaráðherra hefur lagt fram tillögu um það. Það var ekki hægt að skilja formann Sjálfstæðisflokksins öðruvísi en svo að hann væri í reynd að taka undir að það væri réttlætanlegur skattur.

Ég er svo algjörlega sammála hv. þingmanni um það varðandi nýtingu orkuauðlinda að menn eiga að skoða alla kosti, líka í neðri hluta Þjórsár. Það er ríkisstjórnin að gera. Hún gerir það með því að hún hefur lagt fram tillögu að rammaáætlun, þingið mun afgreiða hana. Þá er búið að leggja þann grunn sem við þurfum til þess að geta ráðist í það að nýta orkuna. Þá get ég glatt hv. þingmann með því að þar eru margir fleiri kostir en í neðri Þjórsá. Ég er hins vegar til í að skoða (Forseti hringir.) alla kosti.