140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[19:30]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er svo efnislega sammála mörgu sem hv. þingmaður sagði að ég ætla einungis að halda mig við eina tæknilega athugasemd. Hv. þm. Birgir Ármannsson hefur eins og flokksbróðir hans hv. þm. Illugi Gunnarsson lagt til í sínu máli breytingu á fyrirkomulagi umræðna um fjárlagafrumvarpið. Þingmennirnir hafa gert því skóna að það væri hallkvæmara umræðunni og leiddi til skilmerkilegri niðurstöðu að fagráðherrarnir kæmu til þings og gerðu hver grein fyrir þeim köflum frumvarpsins sem undir þeirra fagráðuneyti heyra og þingmenn gætu þá spurt þá út úr. Þetta telja hv. þingmenn að gæti orðið til að greiða fyrir umræðum. Þetta er ekki óskynsamleg tillaga hjá hv. þingmönnum.

Ég vil samt sem áður benda á þá staðreynd að fagráðherrarnir eru meira og minna hér til þess að svara hv. þingmönnum. Ég get t.d. upplýst hv. þm. Birgi Ármannsson um það að forsætisráðherra gaf ákaflega skýr og strengileg skilaboð til allra ráðherra um að vera við umræðuna og gefa kost á sér til andsvara. Það hafa menn gert eftir atvikum í dag. Ég hef verið hér, ekki í allan dag en meðfram því sem ég þurfti að sinna öðrum skyldum. Hæstv. velferðarráðherra hefur verið hér í allan dag. Það hefur hins vegar ekki borið á því að hv. þingmenn hafi komið til fagráðherranna sérstökum spurningum.

Nú er það þannig að þó að fjárlagafrumvarpið sé nýframkomið og sé langur og mikill lestur þá er því skipt í kafla eftir viðeigandi ráðuneytum. Þingmenn skipta sér sömuleiðis í verkhópa, þ.e. nefndir þingsins sem þeir sinna sérstaklega, þannig að það væri hægurinn fyrir hv. þingmenn að kynna sér tiltekna kafla og koma og spyrja ráðherrana út úr. Það hafa þeir ekki gert. Ég ætla ekki að halda því fram að það sé einvörðungu leti að kenna hjá hv. þingmönnum (Forseti hringir.) en þeir hafa færin til þess þannig að ég tel (Forseti hringir.) að þetta væri ekki mikil efnisleg breyting.