140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[19:34]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta fjárlagafrumvarp er auðvitað ekki þess eðlis að það geri kraftaverk en það er partur af mjög eindreginni og skarpri viðleitni ríkisstjórnarinnar til þess að vinna bug á vanda. Það er partur af þeirri nauðvörn sem þjóðin hefur verið í síðustu ár sem auðvitað var nauðsynleg vegna efnahagshrunsins. Ég geri ekki kröfu til þess að hv. þingmaður sé sammála öllu þrátt fyrir það og ég ætla ekki einu sinni að halda því fram að hann sé sammála einhverjum sérstökum atriðum, en ég er bara sammála þeim viðhorfum sem hv. þingmaður bar hér fram um nauðsyn þess að stækka kökuna, að fjölga störfum, að gera allt það sem hægt er til að gera fyrirtækjunum léttara lífið til þess að þau geti aukið sköpun starfa.

Þegar hv. þingmaður sagði áðan að besta leiðin til að skapa störf væri að minnka skatt á fyrirtækin þá er ég sammála honum um að það er leið til þess, en um leið og það er gert blasir það við að einhvers staðar þarf að fylla upp í það gat sem þar mundi myndast. Það er þá varla hægt, a.m.k. ekki á þeim skamma tíma sem við höfum til stefnu og höfum haft frá því að bankahrunið reið yfir, með öðrum hætti en að velta þeim byrðum yfir á borgara landsins. Sú leið var ekki farin að þessu sinni, þ.e. meiri hluti þess sem heimt er með sköttum er tekinn með allt öðrum hætti og meiri hluti þess svigrúms sem reynt er að búa til til að geta minnkað fjárlagahallann er tekinn með niðurskurði öfugt við það sem var í fyrra. En ég er auðvitað sammála hv. þingmanni um að það væri æskilegt og ef við lifðum í besta heimi allra heima þá hefðum við lækkað skatta á fyrirtæki og skapað fleiri störf, þá hefðum við lækkað skatta á einstaklingana og heimilin í landinu og aukið veltuna. Því miður þarf stundum gera fleira en gott þykir. Það veit ég að hv. þingmaður er mér sammála um.