140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[19:48]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég vil í lok þessarar umræðu þakka öllum hv. þingmönnum sem tekið hafa þátt í henni. Ég vil leyfa mér að segja að mér finnst umræðan hafa verið til hreinnar fyrirmyndar. Þetta er með betri og málefnalegri umræðum sem ég hef tekið þátt í lengi, sérstaklega þegar jafnviðkvæmt og auðveldlega umdeilanlegt mál er á ferð og fjárlagafrumvarp á erfiðum tímum. Fluttar hafa verið málefnalegar og góðar ræður án stóryrða og menn hafa að langmestu leyti tekið þátt í umræðunni á uppbyggilegum forsendum.

Ég hef að mestu leyti brugðist við með andsvörum, því sem ég hef talið sérstaka ástæðu til að svara, þannig að það er ekki margt eftir í þeim efnum. Ég vil þá leyfa mér að byrja á hv. síðasta ræðumanni, hv. þm. Pétri Blöndal og segja að ég er algerlega sammála hv. þingmanni um að þetta snýst ekki síst um að gefa þjóðinni von eða viðhalda henni. Þetta snýst um trú á framtíðina og hefur það gert allan tímann í gegnum kreppuna. Trú á framtíðina í þessu góða landi er um það bil það síðasta sem við megum missa frá okkur. Þess vegna hef ég ekki alltaf talið það uppbyggilegt þegar menn hafa farið með mesta hræðsluáróðurinn, spáð eða boðað stórfelldan landflótta, að ríkið væri í þann veginn að fara á hausinn eða annað í þeim dúr. Sem betur fer eru ekki innstæður fyrir því. Hið fyrra hefur ekki gengið eftir nema í mjög takmörkuðum mæli þótt eitthvað af fólki hafi leitað á önnur mið, og hið síðara er alger fjarstæða, að til standi að íslenska ríkið komist ekki út úr þessum erfiðleikum.

Varðandi hugmyndir hv. þingmanns um að ríkissjóður ætti að fara í stórfellda eignasölu og ná þannig niður skuldum sínum held ég að huga þurfi að því hvað á í hlut hverju sinni. Ég er sammála því að við þær aðstæður þegar ríkið hefur orðið að taka á sig miklar byrðar og t.d. sett umtalsvert fé inn í fjármálakerfið til að endurfjármagna nýja banka og/eða taka þátt í því með öðrum leiðum er eðlilegt að horft sé til þess á móti hvort ríkið geti þá losað eignir til að það leiði ekki til aukinna brúttóskulda. Það er einmitt það sem ný ríkisfjármálaáætlun boðar, að við ætlum að láta nokkra eignasölu og arðgreiðslur af eignum ríkisins hjálpa til á næstu árum, á næsta ári og þeim þremur sem þar fara á eftir miðað við áætlunina til 2015, til að þurfa ekki að ganga lengra í niðurskurði eða hækka skatta. Ég geri því ráð fyrir að hv. þingmaður sé mér sammála í þessum efnum og reyndar tók hann það sérstaklega fram að í tilviki eignarhluta í bönkum ætti að losa um það.

Landsvirkjun tel ég hins vegar að sé allt annað fyrirtæki. Í fyrsta lagi hefur hún gríðarlega verðmæt réttindi frá þjóðinni og ríkinu til virkjana og er þar af leiðandi í miklu nábýli við hina sameiginlegu auðlind. Í öðru lagi held ég að miðað við þær sviðsmyndir sem fyrirtækið hefur m.a. sjálft teiknað upp í tengslum við stefnumótun sína værum við um það bil að láta þar frá okkur verðmætustu gullkúna sem við eigum. Ég sé framtíðina þvert á móti þannig fyrir mér að Landsvirkjun verði á komandi árum og áratugum okkar Statoil, ef ég má orða það þannig, okkar ríkisfyrirtæki sem skilað geti eiganda sínum þjóðinni miklum arði. Um leið höfum við stjórn á þessum mikilvæga þætti sem er orkunýtingin í stóru, öflugu fyrirtæki. Við eigum miklu frekar að horfa á það þannig, en það kemur út á eitt að lokum ef fyrirtækið er vel rekið og getur í vaxandi mæli skilað eiganda sínum, þjóðinni, miklum arði.

Varðandi nokkur önnur atriði sem aðallega hafa verið til umræðu vil ég í fyrsta lagi segja að ég tel að hv. þm. Helgi Hjörvar og fleiri sem hann átti orðastað við hafi eytt öllum þeim misskilningi sem aðeins hefur borið á í fjölmiðlum, að í verðlagsuppfærslu svokallaðrar krónutölu skatta sé fólgin skattahækkun. Í frumvarpinu er eingöngu um það að ræða að láta þá gjaldtöku fylgja verðlagi í ljósi þess að það hefur ekki gefið góða raun að gera það ekki, sérstaklega ekki ef menn gera það ekki ár eftir ár, þá myndast þar slaki sem getur verið miklu erfiðara að vinna upp í stórum stökkum.

Það var því miður eitt af því sem gerðist á árunum fyrir hrunið að í sumum tilvikum hirtu menn ekki um að láta gjöld af þessu tagi fylgja verðlagi þannig að þau héldu nokkurn veginn sjó í þeim efnum. Þar af leiðandi stóðu menn frammi fyrir enn þá erfiðara verkefni þegar kom að því að hífa upp markaða tekjustofna til vegagerðar eða gjöld af áfengi og tóbaki eða hvað það nú var að það hafi verið trassað undanfarin ár.

Margir hafa rætt um forsendur frumvarpsins og þá sérstaklega í skilningi hagvaxtarspáa og horfa í þeim efnum. Það er eðlilegt og þar er að sjálfsögðu óvissa eins og við þekkjum öll. Þannig hefur það alltaf verið í einhverjum mæli en það er sérstaklega erfitt að gera áreiðanlegar spár við óvissuaðstæður eins og þær sem við höfum verið að ganga í gegnum og þegar ytra umhverfi, þ.e. þróun efnahagsmála í okkar mikilvægustu viðskiptalöndum, er sömuleiðis mjög óvisst.

Engu að síður eru spárnar yfir þriggja ára tímabil allar upp á 2,5–3% hagvöxt að meðaltali ef við tökum árið í ár og til og með 2013, sem er nálægt okkur í tíma, og allar helstu hagspár sem fyrir liggja og finna meðaltalsútkomuna. Það hlýtur að teljast þokkalega góð útkoma þó að við gætum alveg þegið að það liti enn betur út. En það er miklu betra að vera þó raunsær í þeim efnum og horfa á það sem líklegt er að geti gengið eftir í aðalatriðum og byggja á því. Óvissan er mikil, ekki síst í Evrópu, og maður fylgist daglega með fréttum þaðan eins og t.d. í dag frá Norðurlöndunum sem eru ekki góðar og teikna ekki til þess að þar séu vissutímar í vændum. Í því samhengi og í tengslum við fjárfestingar sem drifhvatar hagvaxtar var þó ánægjulegt að fá fréttir í dag af því að einu stærsta fyrirtæki landsins, samstæðunni Icelandair, hefði tekist að ljúka stórum fjármögnunarsamningi við erlendan banka, Deutsche Bank, upp á 1.800 millj. bandaríkjadala. Ég held að við ættum að fagna slíkum fréttum því að þær sýna að byrja er að þiðna aðeins upp í samskiptum atvinnulífsins hér og jafnvel erlendra banka. Það eru að opnast leiðir til eðlilegri samskipta og eðlilegra aðgangs að alþjóðlegum fjármálamörkuðum og er enginn minnsti vafi á því að sú staðreynd að ríkið gat rutt brautina sl. vor og farið út á erlendan fjármálamarkað og boðið út einn milljarð bandaríkjadala á ágætum kjörum — eftirspurnin er meira en tvöföld — hjálpar verulega í þeim efnum. Það hefur breytt viðhorfinu verulega til þess að Ísland sé að komast inn úr kuldanum í þeim efnum og það finna bankarnir og fleiri aðilar núna.

Varðandi viðhorf erlendra aðila til fjárfestinga hér sem nokkrir hafa nefnt verð ég að segja að ég kannast ekki alveg við þá mynd sem margir draga upp. Það vill svo til að ég hitti mjög marga sem eru að kynna sér stöðu mála hér og ég hef átt fundi með mörgum þeirra bæði innan lands og utan. Ég hitti stærstan hlutann af um og yfir 100 erlendum fjárfestum sem fulltrúar okkar, fjármálaráðuneytis og Seðlabanka, voru í samskipti við fyrir skuldabréfaútgáfuna í vor. Ég átti stóra fundi með hópum erlendra fjárfesta í London og New York og hitti þá víðar. Þegar búið var að fara yfir málin og kynna þeim það umhverfi sem hér væri var fljótgert að eyða áhyggjum þeirra og óvissu af einstökum málum sem blásin hafa verið út. Þegar t.d. er lögð á borðið og kynnt fyrir erlendum fjárfestum ný rammalöggjöf um ívilnanir til nýfjárfestinga sem við höfum sett, sem markar skýran ramma um það umhverfi í fjárfestingum sem mönnum stendur til boða á grundvelli laga þar sem allir sitja við sama borð og menn eru hættir að handsemja við hvern og einn, lýsa menn almennt ánægju með það og segja: Þetta er fínt, það er nákvæmlega svona umhverfi sem við viljum. Sama gildir um það sem gert hefur verið í sambandi við löggjöf á fleiri sviðum, ýmsan undirbúning í þessum efnum, starfsemi Íslandsstofu og margt fleira.

Ég tel að mat það sem fyrirtækið Aon gaf út á Íslandi í þessum efnum sé alger fjarstæða og fráleitt að meðhöndla Ísland eins og þar er gert. Ég bíð eftir tækifæri til að ná í það fyrirtæki og fara yfir málin með þeim því að þegar maður sér forsendurnar sem þar eru lagðar upp eru þær út úr öllu korti í sumum tilvikum. Það virðist vera sem þetta fyrirtæki hafi ekkert frétt af Íslandi frá hruninu 2008. Í mati fyrirtækisins er enn talað um hættuna á greiðslufalli ríkisins, sem enginn ræðir um lengur, og fleiri slíka hluti sem byggja sennilega á því að fyrirtækið hafi ekki kynnt sér málin nógu vel.

Það er sannarlega viðfangsefni að flytja fram málstað landsins, kynna sögu þess og koma því á framfæri að við erum þó komin þetta langt frá hruninu og búin að ná þeim árangri sem raun ber vitni. Ég geri ráð fyrir að t.d. hv. þm. Pétur Blöndal sé þeirrar skoðunar að markaðurinn sé býsna marktækur dómari í þessum efnum. Telur hv. þm. Pétur Blöndal að líklegt sé að við höfum náð því að gefa út skuldabréf á erlendum markaði fyrir 1 milljarð dollara á ágætum kjörum og fara í gegnum það þrönga nálarauga og það mat sem fjárfestarnir leggja á landið við slíkar aðstæður öðruvísi en svo að menn telji að við séum að ná tökum á málum okkar og að framtíðarhorfur séu batnandi? Ég held að svarið liggi í augum uppi. Það er mikill gæðastimpill á það sem þó hefur áunnist að við skulum nú í fyrsta skipti frá því árið 2006 eiga opinn aðgang að erlendum fjármálamörkuðum.

Ég er mjög bjartsýnn á þá möguleika sem við eigum til fjárfestinga og uppbyggingar í atvinnulífinu. Hér hafa margir nefnt orkuiðnaðinn og að sjálfsögðu er það eitt álitlegasta sviðið vegna þess að það er mikill áhugi og mikil eftirspurn eftir því að fá aðgang að okkar endurnýjanlegu orku á samkeppnishæfu verði. Þar eru samningar á mismunandi stigum í gangi og sumir mjög langt komnir. Viljayfirlýsingar hafa þegar verið undirritaðar um þó nokkur viðbótarverkefni við þau sem þegar eru í höfn og eru í fullum gangi.

Það liggur alveg fyrir að Landsvirkjun undirbýr nú miklar framkvæmdir í Suður-Þingeyjarsýslu á næstu árum. Hún hefur boðið út hönnun tveggja virkjana og er langt komin í viðræðum við aðila um nýtingu orkunnar sem þar verður framleidd. Það er að vísu dálítið sérkennilegt að heyra síðan þingmenn koma upp og tala alltaf og endalaust um Neðri-Þjórsá eins og það sé eina vatnsfallið á Íslandi sem sé virkjanlegt, svo ekki sé talað um jarðhitann. Það er dálítið dapurlegt að verða vitni að þeirri þröngsýni sem ég vil kalla svo. Kannski er það vegna þess að menn halda að það sé sérstaklega erfitt eða viðkvæmt að ræða það mál en það er ekki. Þarna er um mjög umdeilda virkjunarkosti að ræða þrátt fyrir allt, bæði í héraði og á landsvísu, og margir telja að fara þurfi betur yfir það hvort þarna eigi endilega að bera niður. Þá nefni ég sérstaklega Urriðafossvirkjun sem verður í vegi eins stærsta, ef ekki stærsta, villta laxastofns á Íslandi á leið sinni upp ána, og mun hafa mikil áhrif á lífríkið í ánni o.s.frv.

Ferðaþjónustan er í örum vexti og þar eru miklar fjárfestingar. Það hafa verið umtalsverðar fjárfestingar í hótelbyggingum eða endurgerð hótela í ferðaþjónustunni síðustu missirin. Icelandair, sem ég nefndi áðan hefur stóraukið umsvif sín ár frá ári. Fyrirtækið bætti við tveimur flugvélum í flotann í ár og áformar nú að bæta öðrum tveimur við á næsta ári. Ef ég man rétt var það einhvern tíma talið að hver ný stór flugvél sem kæmi inn í flugflotann þar væri ávísun á um 100 störf og umtalsverða veltuaukningu og gjaldeyrissköpun.

Við erum með nýlega skýrslu í höndunum um veltuna og möguleikana í svonefndum skapandi greinum sem ég held að hafi komið okkur öllum á óvart hversu mikil stóriðja er orðin í hagkerfi okkar og hversu miklu máli útflutningur á tónlist, myndlist, hönnun, bókum, kvikmyndum og öllu því, skipta. Sjávarútvegurinn styrkir nú stöðu sína með gríðarlega góðu tekjustreymi og nú þegar horfir til 17 þúsund tonna aflaaukningar í þorski, á þessu ári hefur verið einhver besta makríl- og uppsjávarveiðivertíð sem menn hafa nokkurn tíma upplifað og horfur eru á ágætri loðnuvertíð í vetur. Makrílveiðarnar sköpuðu gríðarleg verðmæti með manneldisvinnslu o.s.frv. Landbúnaðurinn er vaxandi útflutningsgrein og matvælaiðnaðurinn blómlegur og lítil og meðalstór fyrirtæki ættu að fara að komast í betri gang eftir því sem vinnst úr skuldamálum þeirra með beinu brautinni og þar fram eftir götunum.

Ég vil að síðustu taka undir það sem rætt hefur verið varðandi tvennt; það er annars vegar samspil ríkisfjármálanna og peningamálastefnu Seðlabankans. Í því skyni að efla þau samskipti kynntum við Seðlabankanum ríkisfjármálaáætlunina sérstaklega þegar hún var frá gengin í ágústmánuði og var það gert fyrir síðasta fund peningastefnunefndar.

Vegna þess sem hv. þm. Illugi Gunnarsson nefndi um umræðu um fjárlagafrumvarp tel ég koma mjög vel til greina, og hefur enda áður verið rætt, að breyta framvegis tilhögun þeirrar umræðu þannig að fagráðherrar mæli sérstaklega fyrir málum á fagsviði sínu í kjölfar almennrar umræðu sem innleidd væri af fjármálaráðherra. Þótt það tæki tvo daga með vandaðri yfirferð fyrst á málunum í heild og síðan eftir ráðuneytum eða fagsviðum held ég að það gæti verið góð hugmynd.

Ég þakka svo að lokum umræðuna.