140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[20:10]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni sérstaklega fyrir þessa síðustu yfirlýsingu og ég er honum hjartanlega sammála um það. Þess vegna erum við að reyna að koma þessu í fast horf þannig að þetta fylgi bara verðlagi og þá eru engin átök um það.

Ég vil segja í sambandi við sérfræðihópana frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, sem komu til dæmis hingað í sambandi við skattamál, að þeir eru þannig valdir að þeir eru skipaðir bæði fagfólki innan sjóðsins og utanaðkomandi sérfræðingum. Við fáum því þarna mjög mikla fagmennsku og mikla sérfræðinga sem koma jafnvel frá háskólum eða fyrirtækjum sem taka að sér verkefni með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í afmörkuðum tilvikum af þessu tagi. Ég hef hitt þetta fólk og átt við það viðræður og sú vinna sem þar fór fram var á mjög háu plani. Þeir voru að gera úttekt á skattkerfinu eins og það er núna og sumum breytingunum og almennt gáfu þeir því nokkuð góða einkunn, komu með ýmsar ágætar ábendingar sem við höfum sumar hverjar þegar nýtt okkur og aðrar eru kannski í vinnslu.

Ég tel að ekki sé hægt að færa fyrir því mikil rök að skattkerfið hér hafi verið flækt einhver óskapa ósköp. Það er einfaldlega ekki rétt þegar betur er að gáð. Þó að hér séu þrjú þrep í tekjuskatti, í staðinn fyrir tvö eins og var mjög lengi, þá er það nær því að vera reglan að þau séu mörg, til dæmis í öðrum OECD-löndum. Sums staðar eru mörg þrep í virðisaukaskatti, hér eru þau aðeins tvö o.s.frv. Þannig að í grunninn erum við með tiltölulega einfaldan skatt. Fjármagnstekjuskatturinn á Íslandi eins og hann er núna er einfaldur. Tekjuskattur á hagnað lögaðila er einfaldur og hann er 20% eins og hann var lengi og áður 28%. Ég er með fyrir framan mig skýrslu KPMG um skatta þar sem skatthlutföll eru borin saman innan til dæmis OECD-ríkjanna og Ísland er þar niðri í 11., 12. til 15. sæti þegar kemur að skatthlutföllum í tekjuskatti (Forseti hringir.) á skatti á fjármagnstekjur eða skatti á hagnað fyrirtækja. Við erum á nákvæmlega þeim stað sem ég held að eðlilegt sé miðað þau lönd sem við helst berum okkur saman við.