140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

innlánstryggingakerfi.

[15:13]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er eðli innstæðutryggingakerfa að þeim er ætlað að dreifa áhættu og byggja upp sjóði til að bregðast við mögulegri áhættu. En það er líka eðli þeirra eins og allra annarra tryggingakerfa að ekkert tryggingakerfi getur þolað öll áföll á nákvæmlega sama tíma. Sérstakur veikleiki hjá litlum ríkjum á hinum opna evrópska markaði felst í innstæðutryggingakerfinu eins og það er. Það sáum við í hruninu.

Ég þori ekki að fara með hver staða Belga er enda þekki ég ekki í smáatriðum til fjármögnunar í innlánstryggingakerfinu þar, en hitt er víst að eins og við sáum er það mjög vont þegar ríki með hlutfallslega stórt bankakerfi lendir í áföllum. Þá duga innstæðutryggingakerfi hvergi nærri til að bregðast við því.

Ég hef komið þeim skilaboðum skýrt á framfæri að ég telji eðlilegt að innstæðutryggingakerfið verði hannað þannig að það vinni þvert á landamæri þannig að vandinn verði ekki svo mikill fyrir lítil ríki með hlutfallslega stórt bankakerfi. Við þurfum að innleiða innstæðutryggingakerfi. Ég á von á að koma með frumvarp því tengt í þingið fljótlega vegna þess að það er alger forsenda fyrir því að við getum farið í afnám hafta. Við verðum að skapa traust á innstæðum. Eins og hv. þingmaður nefnir byggir innlánskerfið í dag á almennri ábyrgðaryfirlýsingu ríkisins um að ríkið muni hlaupa undir bagga með fólki og tryggja innstæður. Það er mjög mikilvægt að vel fjármagnaður og trúverðugur innstæðutryggingarsjóður bætist við í þær varnir til að auka þá tiltrú til að við getum ráðist í afnám hafta, eins og ég veit að hv. þingmaður hefur lýst áhuga á.