140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

innlánstryggingakerfi.

[15:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Í kjölfar hrunsins haustið 2008 lagði ég til að Evrópusambandið mundi stofna einn sjóð yfir öll landamæri og að sá sjóður hefði heimild til að grípa inn í innlán sem yxu of mikið vegna hárra innlánsvaxta eins og gerðist í Hollandi og Bretlandi varðandi Icesave, og eins að innlán yrðu sett í forgang við gjaldþrot eins og við gerðum í neyðarlögunum. Það hefur ekki gengið eftir. Menn ganga eiginlega öfuga leið í Evrópusambandinu. Þeir hækka tryggingarnar og þeir auka ríkisábyrgðina. Mér finnst að hæstv. ráðherra þurfi að gera vinum sínum í Evrópusambandinu grein fyrir því að þeir verði að gera eitthvað til að laga stöðu innlánseigenda í litlum hagkerfum þar sem bankakerfið er tiltölulega stórt eða þar sem fall einstaks banka getur rústað þá tryggingu.