140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

innlánstryggingakerfi.

[15:16]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það stendur ekki á mér að koma þeim skilaboðum á framfæri að innstæðutryggingakerfið þurfi að virka þvert á landamæri. Það er mjög mikilvægt að það verði gert. Á evrópskum vettvangi er unnið að úttekt á því hvort svo beri að gera en það er því miður of langt í niðurstöðu hennar fyrir minn smekk.

Hitt er rétt að hafa í huga að ýmis þau orð sem látin voru falla um að Evrópusambandið væri að fara í aðra átt sem væri okkur ekki sérstaklega hentug og yki ríkisábyrgð á innstæðutryggingakerfunum, eiga ekki alveg við rök að styðjast. Ég bendi á að í svari því sem ég sendi Eftirlitsstofnun EFTA sl. föstudag eru raktar þær skýringar sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur sett fram á nýjum hugmyndum að breytingum á innstæðutryggingakerfinu. Þar er skýrt tekið fram að ríki eigi ekki að bera ábyrgð á innstæðutryggingakerfum. Það er einn af þeim þáttum sem við færum fram í málsvörn okkar til að það sé engum vafa undirorpið að það er engin lagaleg skylda á Íslandi að greiða með einhverjum hætti til baka (Forseti hringir.) þær innstæðutryggingar sem við erum þó að greiða núna í gegnum heimtur úr þrotabúi Landsbankans.