140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

IPA-styrkir Evrópusambandsins.

[15:25]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Síðastliðið vor lagði ég fram fyrirspurn á þingi til hæstv. utanríkisráðherra um styrki sem íslensk stjórnvöld hafa sótt um eða hyggjast sækja um vegna aðildarumsóknar að Evrópusambandinu. Svarið sem ég fékk í apríl sl. var ágætt svo langt sem það náði en á hinn bóginn var líka ljóst að margt átti eftir að skýrast um framhald þessara mála á þessu ári, svo ekki sé talað um næsta ár.

Nú þegar komið er fram í október finnst mér rétt að spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvernig styrkjamálin vegna aðildarumsóknarinnar að Evrópusambandinu standa. Ég er ekki að biðja um nákvæmar tölur heldur aðeins megindrætti, sérstaklega hvað varðar hina svokölluðu IPA-styrki sem eru nokkurs konar aðlögunarstyrkir fyrir þær þjóðir sem sækja um aðild.