140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

IPA-styrkir Evrópusambandsins.

[15:26]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Af þeim styrkjum er bara flestallt gott að frétta. Þeir hafa til að mynda verið ræddir á þinginu eftir að hv. þingmaður beindi til mín fyrirspurn í vor, þá svaraði ég annarri fyrirspurn frá Baldri Þórhallssyni sem sat hér á þingi. Þar var gerð grein fyrir þeim verkefnum sem fyrirhugað var að leita styrkja til, sömuleiðis greint frá því að í smíðum væri sérstök áætlun fyrir næsta ár en sömuleiðis allmiklu lausari áætlun til næstu þriggja ára. Þetta er samkvæmt samþykkt ráðherranefndar um Evrópumál sem líka hefur verið kynnt í þinginu og kynntar opinberlega þær reglur sem eftir er farið. Um það er ekkert frekar að segja. Ef ég man rétt hafa sjö verkefni verið samþykkt fyrir næsta ár og þau verða ekki fleiri fyrir næsta ár. Sömuleiðis hafa verið samþykktir undirbúningsstyrkir til að undirbúa fleiri verkefni sem ekki hlutu náð fyrir augum þeirra sem um þetta véla.

Ef hv. þingmaður vill fá ítarleg svör vænti ég þess að hann beini til mín með venjulegum hætti ítarlegri fyrirspurn og ég get þá upplýst hann um öll smáatriði þessa máls.