140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

ákvörðun um stuðning við aðgerðir NATO í Líbíu.

[15:31]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að núna eru þau átök sem stóðu yfir í Líbíu farsællega til lykta leidd í samræmi við þann yfirlýsta vilja sem kom fram ítrekað í þinginu. Þá er það er hárrétt hjá hv. þingmanni að á sínum tíma beitti ég því valdi sem ég hafði til að koma því í kring að fastafulltrúi okkar hjá Atlantshafsbandalaginu beitti ekki því neitunarvaldi sem hann hefði getað beitt fyrir Íslands hönd. Á þeim tíma hafði ég gengið tryggilega úr skugga um að ríkur vilji var til þess að þessi háttur væri hafður á innan þings. Sömuleiðis var þetta mál rætt á sínum tíma í utanríkismálanefnd einnig.

Í síðara skiptið sem ákvörðun var tekin af þeim tveimur fyrri var það líka rætt í ríkisstjórninni. Það er rétt sem hv. þingmaður sagði að þar bókuðu fulltrúar og ráðherrar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eindregin mótmæli sín.

Þegar ákvörðun var tekin núna, hin síðasta, þá leit ég svo á að þar væri ekki um meiri háttar utanríkismál að ræða. Þá lá það fyrir að átökin voru á svipuðu stigi og þau eru núna, nánast til lykta leidd. Það átti eftir að ljúka ákveðnum hlutum og það umboð sem óskað var eftir af hálfu Atlantshafsbandalagsins var þrír mánuðir til að ljúka því en menn töldu að það yrði miklu skemmri tími. Það var ástæðan fyrir því að ég taldi ekki þörf á að fara í utanríkismálanefnd.

Steingrími J. Sigfússyni, formanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, var ekki tilkynnt þetta eða hann spurður persónulega. Hins vegar fór ég með þetta mál inn í ríkisstjórn og greindi frá því að þetta væri ákvörðun mín og ræddi það í ríkisstjórninni og eins og fyrr bókaði Vinstri hreyfingin – grænt framboð mótmæli sín og andstöðu við það.