140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

ákvörðun um stuðning við aðgerðir NATO í Líbíu.

[15:33]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Það er tvennt sem vekur athygli mína í svari hæstv. utanríkisráðherra. Í fyrsta lagi að afstaða Íslands til framlengingar hernaðaraðgerða Atlantshafsbandalagsins í Líbíu er ekki lengur meiri háttar utanríkismál. Það finnst mér athyglisvert. Ég veit vel af umræðunum hér á þingi og ég veit vel hvernig umræðurnar hafa verið í utanríkismálanefnd og ég get alveg upplýst það að afstaða mín til þessa máls er sú að ég hefði ekki greitt atkvæði gegn því að gera þetta. Það er hins vegar ekki það sem máli skiptir. Það sem skiptir máli er að hæstv. utanríkisráðherra finnst þetta ekki vera meiri háttar utanríkismál.

Síðan er það hitt atriðið sem er athyglisvert að það er alveg sama hvað Vinstri grænum finnst um málið. Það er alveg sama hvort Vinstri grænir séu í ríkisstjórn eða ekki. Á þá er greinilega ekki hlustað varðandi utanríkismál. Það finnst mér mjög athyglisvert.