140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

ákvörðun um stuðning við aðgerðir NATO í Líbíu.

[15:34]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það er ekki rétt hjá hv. þingmanni að utanríkisráðherra hlusti ekki á fólk. Til að mynda hef ég jafnan hlustað á þau rök sem hv. þingmaður hefur flutt fram fyrir ýmsum málum, utanríkismálum og öðrum. Það er náttúrlega tóm vitleysa að halda því fram að ekki sé tekið tillit til afstöðu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í utanríkismálum. Ég nefni t.d. að eitt helsta baráttumál þeirra, þ.e. viðurkenning á sjálfstæðri Palestínu, er til umræðu á morgun að tillögu minni. Ég vísa þeim ummælum því til móðurhúsanna.

Að því er varðar Líbíu tel ég raunar, eins og ég hef fært rök að í ræðustól Alþingis, að ég hefði getað tekið þá ákvörðun sem ég tók, hina fyrstu, án þess að ræða það við utanríkismálanefnd. Það er algerlega ljóst, og án þess að fara eftir því sem endilega hefði verið niðurstaða utanríkismálanefndar vegna þess að það er ekkert í lögunum sem segir að ég þurfi að fara eftir því. Ég kýs hins vegar að halda friðinn við meiri hluta þings og það hef ég gert í þessu máli og öðrum. Það er ekkert utanríkismál sem ég hef komið með, Palestína, ESB eða Líbía, sem ekki hefur hlotið meirihlutastuðning í þessum sal.