140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[15:36]
Horfa

Flm. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um staðgöngumæðrun. Forsaga þessa máls er mörgum kunn. Sambærileg tillaga var lögð fram á síðasta þingi, 139. þingi, sem undirrituð ásamt 17 flutningsmönnum í það skiptið lagði fram. Sú tillaga hlaut ekki lokaafgreiðslu á þinginu en fékk mjög góða og vandaða umfjöllun í heilbrigðisnefnd. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka hv. þáverandi heilbrigðisnefnd fyrir sérstaklega góða vinnu og afgreiðslu á þessu máli.

Því miður náði málið sjálft ekki fram að ganga, þ.e. það náði ekki að koma til 2. umr. og lokaafgreiðslu vegna tímaskorts á septemberþinginu og varð því að samkomulagi við þinglok í september að málið skyldi lagt fram að nýju og fá þá umræðu sem þingmenn telja nauðsynlega og vinnu í nefnd, byggt á þeirri vinnu sem þegar hefur farið fram. Það varð enn fremur að samkomulagi, og var staðfest hér með ræðum þingflokksformanna á lokadegi þingsins, að málið yrði afgreitt úr nefnd og kæmi hingað til afgreiðslu. Nú er enginn sem getur sagt fyrir um niðurstöðu eða afstöðu nefndarinnar til málsins, hún hefur það í hendi sér hvernig hún vinnur þetta mál og hvaða afstaða verður tekin til þess. En það varð að samkomulagi að þingmenn fengju tækifæri til að greiða um það atkvæði fyrir þinglok nú í desember og láta afstöðu sína í ljós. Ég fagna því og hvet alla þingmenn til að taka þátt í umræðum. Það sem var gagnrýnt hér og varð til þess að málið var ekki afgreitt til lokaafgreiðslu á fyrri stigum var að menn sögðu: Það vantar meiri umræðu, þetta er viðkvæmt mál, fjölmörg sjónarmið, það þarf að koma þeim á framfæri. Ég fagna því og hvet þingmenn til að taka þátt í þeirri umræðu.

Aðeins um tillöguna sem hér liggur fyrir. Hún er aðeins breytt frá fyrri tillögu og er það sérstaklega vegna þeirra athugasemda sem fram komu við vinnu fyrrverandi heilbrigðisnefndar, nú velferðarnefndar, til að hafa þetta allt saman rétt. Nýja tillagan er að miklu leyti byggð á nefndaráliti meiri hlutans í heilbrigðisnefnd sem lagði til að tillagan yrði samþykkt með breytingum. Ég get tekið undir allar þær breytingar sem lagðar voru til af hálfu nefndarinnar og fagna því að nefndin hafi lagt í þessa miklu vinnu. Nú eru flutningsmenn með mér 22 þingmenn úr fjórum flokkum og einn þingmaður utan flokka, hv. þm. Guðmundur Steingrímsson. Það hefur því fjölgað í hópi framsögumanna og vona ég að það viti á gott og verði til þess að okkur takist að afla málinu stuðnings.

Ég vil taka það fram í fyrsta lagi að við erum alltaf að tala um staðgöngumæðrun af velgjörð. Ég ítreka það hér og það er tekið sérstaklega fram í greinargerð með tillögunni. Það er beinlínis sagt, með leyfi frú forseta:

„Flutningsmenn tillögunnar leggjast alfarið gegn staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni og telja mikilvægt að gerður sé skýr greinarmunur á hagnaði og velgjörð í þessu samhengi.“

Við erum alltaf að ræða um staðgöngumæðrun af velgjörð og það er mjög mikilvægt að það liggi fyrir. Vegna þess að tillögugreinin hefur tekið þó nokkrum breytingum frá fyrri tillögu ætla ég að fá að lesa hana, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela velferðarráðherra að skipa starfshóp sem undirbúi frumvarp til laga sem heimili staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

Við vinnuna verði meðal annars lögð áhersla á að tryggja í fyrsta lagi hag og réttindi barnsins, að tryggja í öðru lagi rétt, sjálfræði og velferð staðgöngumóðurinnar og fjölskyldu hennar, og að tryggja í þriðja lagi farsæla aðkomu hinna verðandi foreldra. Skýrt verði kveðið á um traustan lagaramma, ströng skilyrði og skýrar verklagsreglur við framkvæmd og eftirlit staðgöngumæðrunar sem og hvernig best verði stuðlað að upplýstri umræðu um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni í samfélaginu. Við vinnuna verði faglegt mat og þekking, alþjóðlegar rannsóknir og reynsla annarra vestrænna þjóða lögð til grundvallar.

Frumvarpið verði lagt fram svo fljótt sem verða má.“

Þetta er tillögugreinin eins og hún liggur fyrir. Það sem er mikilvægt að hafa í huga hér er að það er einmitt verið að leggja til að vinna sú sem kallað var eftir, meðal annars hér á Alþingi, fari fram við samningu þessa frumvarps. Það er mjög mikilvægt að hlustað verði á fjölbreytt sjónarmið þegar kemur að þessu. Ég hvet hæstv. velferðarráðherra, af því að ég sé að hann situr hér í salnum, til að skipa til verka fjölbreyttan starfshóp — verði þetta samþykkt, sem ég vona — með fjölbreyttar skoðanir á málinu, sem vinni frumvarp sem tryggi það, sem við viljum öll, að lagaramminn um þetta verði sem best úr garði gerður.

Aðeins út af umræðunni og skorti á umræðu vil ég spyrja, af því að mikið er talað um það í þessari umræðu að svo mikil umræða eigi eftir að fara fram í samfélaginu, og það er eflaust rétt: Hvenær er umræða tæmd? Ég get ekki sagt til um einhverja dagsetningu, ég get ekki sagt: Umræðan um staðgöngumæðrun er tæmd, hér hafa komið fram öll sjónarmið, nú skulum við ákveða með eða á móti. Það er ekki svo einfalt. Þetta mál er þannig að það verður kannski aldrei almenn breið umræða í samfélaginu um það hvort þetta eigi að heimila eða ekki. Menn hafa á þessu skoðanir, ég hef sterka tilfinningu fyrir því að menn hafi á þessu miklar skoðanir vegna þess að ég hef verið að beita mér í þessu máli og mörgum finnst þeir hafa þörf fyrir að ræða þetta mál við mig.

Í kjölfar máls sem snertir staðgöngumæðrun, og kom hér inn á þing í fyrra varðandi Jóel litla sem varð til með þessu úrræði á Indlandi, skapaðist í rauninni miklu meiri umræða um staðgöngumæðrun í íslensku þjóðfélagi en ég hafði nokkurn tímann gert mér vonir um að yrði, og hún var miklu almennari. Ég hafði verið að garfa í þessum málum um nokkurra ára skeið þar á undan og það komu svona toppar í umræðuna þegar eitthvað gerðist, þegar lögð var fram fyrirspurn á Alþingi eða eitthvað varð að fréttaefni en svo dó hún niður. Ég leyfi mér að fullyrða, og skoðanakannanir sýna það, að íslenskur almenningur tekur þessu úrræði, vegna þess að þetta er fyrst og síðast úrræði til handa einstaklingum sem geta ekki eignast börn með öðrum hætti, ef við byggjum á því sem fram kemur í skoðanakönnunum, tekur þessu úrræði fagnandi. Þess vegna er það okkar hlutverk hér á Alþingi að búa svo um hnútana, gera rammann þannig, að við tryggjum að virðing fyrir mannréttindum staðgöngumóðurinnar, barnsins sem til verður, foreldranna verðandi og okkar allra sem búum í þessu samfélagi, verði virk, að skapaður verði þannig rammi að við tryggjum að allir geti vel við unað og borið höfuðið hátt.

Aðeins kannski að lokum um umræðuna vildi ég bara nefna að á síðasta ári telst mér til, þó ekki eftir vísindalega rannsókn, að haldin hafi verið í kringum 12 málþing eða fundir um staðgöngumæðrun. Ég hef verið ræðumaður á allmörgum og sótt önnur. Þetta hefur verið rætt í fjölmiðlum mjög mikið, þetta hefur verið rætt í Kastljósi, í Íslandi í dag, það var Návígisþáttur, þetta hefur verið rætt á útvarpsstöðvunum, í síðdegisútvarpi, morgunútvarpi, á báðum stöðvum, það hefur mikið verið skrifað um þetta í blöð. Ég tel að við eigum núna, í stað þess að deila um það hvort umræðan sé búin eða ekki, að fara í þessa vinnu, skoða sjálf þau álitamál sem við viljum tryggja að höfð verði að leiðarljósi og svara þeim spurningum sem vakna við þessa vinnu. Ég ítreka svo að þegar hæstv. velferðarráðherra hefur lokið þeirri vinnu að semja frumvarp sem heimilar þetta, ef tillagan nær fram að ganga, þá kemur það frumvarp að sjálfsögðu hingað til Alþingis þar sem Alþingi hefur það í hendi sér hvernig það frumvarp verður afgreitt. Að sjálfsögðu hvet ég til þess að það verði samþykkt en það er Alþingi sem á þeim tíma verður að ákveða það.

Ég ætla ekki að endurtaka þá ræðu sem ég flutti hér þegar ég mælti fyrir frumvarpinu á síðasta þingi. Ég hvet menn til að kynna sér hana. Þar fer ég yfir rökin fyrir því að þetta eigi að heimila. Ég vildi frekar nota þessa framsöguræðu mína til að lýsa því hvað hefur breyst. Ég vil hér rétt að lokum, af því að tíminn hleypur frá mér, nefna að í nefndaráliti heilbrigðisnefndar — sem er hér sem fylgiskjal og menn sjá glöggan samhljóm á milli tillögunnar og þess þegar það er skoðað — er ítarlegar fjallað um þau atriði sem þarf að skoða við samningu frumvarps um staðgöngumæðrun. Þetta er að sjálfsögðu ekki tæmandi listi og við vinnu starfshópsins mun það eflaust koma í ljós að það eru önnur atriði sem þarf að skoða. Ég vil ítreka að veigamestu rökin fyrir því að heimila staðgöngumæðrun eru að mínu mati þau að þetta er úrræði sem er til staðar og íslenskir einstaklingar og pör hafa verið að notfæra sér. Ég vil beita mér fyrir því að við gerum þetta þá þannig úr garði að við getum haft eftirlit, tryggt velferð allra hlutaðeigandi og að við getum passað upp á að öll þau gildi sem við setjum í forgrunn séu virt.

Í öðru lagi er þetta jafnréttismál að því leytinu til að við erum búin að stíga mörg skref í þá átt að hjálpa fólki sem býr við skerta frjósemi eða getur ekki eignast börn með hefðbundnum hætti, við höfum stigið mörg skref til að koma því til aðstoðar. Á málþingi sem Háskólinn í Reykjavík hélt fyrir viku eða tíu dögum kom fram í máli lögmanns sem hefur mikla þekkingu á þessu sviði að það væri í raun einboðið vegna þessara jafnræðissjónarmiða að heimila þetta vegna þess að Alþingi hefur stigið þau skref að heimila — hvort sem það heitir tæknifrjóvgun með gjafaeggi, gjafasæði fyrir einhleypar konur, gagnkynhneigðar konur, fyrir einstaklinga, fyrir pör af öllu tagi — ættleiðingar samkynhneigðra. Við höfum heimilað ættleiðingar einhleypra. Það eru tveir hópar sem standa eftir sem geta ekki nýtt sér öll þau úrræði sem til staðar eru og það eru konur sem eru ekki með leg eða geta ekki af öðrum ástæðum gengið með barn, jafnvel þótt þær geti framleitt kynfrumurnar geta þær ekki gengið með barn. Þær mundu geta notað þetta úrræði. Annar hópur er samkynhneigðir eða einhleypir karlmenn, þeir hafa ekki önnur ráð vilji þeir eignast barn en að fá aðstoð utan frá ef svo mætti að orði komast. Það er þannig þegar lagaumhverfið er skoðað að þessir tveir hópar standa eftir. Við getum alveg tekið umræðuna um það hvort of geyst hafi verið farið einhvern tímann áður og hvort heimila hefði átt gjafaegg og gjafasæði án þess að fólk viti um uppruna sæðis- eða eggjagjafans. Það er umræða sem við skulum endilega taka, og um rétt barnsins til að þekkja uppruna sinn. En það hefur ekki með staðgöngumæðrun eingöngu að gera. Þess vegna segi ég: Við skulum (Forseti hringir.) leyfa þetta, við skulum fela hæstv. velferðarráðherra að skipa starfshóp sem semur vandað frumvarp sem við getum öll verið viss um (Forseti hringir.) að gæti hagsmuna og mannréttinda allra hlutaðeigenda. Tökum svo hina umræðuna í stærra samhengi.