140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[16:01]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. flutningsmanni, Ragnheiði Elínu Árnadóttur, kærlega fyrir framsöguræðuna. Mig langar í upphafi að koma því að ég var meðflutningsmaður hennar ásamt öðrum þingmönnum þegar þetta var rætt á síðasta þingi en eftir mikla umræðu og mikil skoðanaskipti sem áttu sér stað í þjóðfélaginu eftir að sú þingsályktunartillaga kom fram hef ég að nokkru leyti skipt um skoðun. Ég er ekki meðflutningsmaður en ég geri það ekki upp við mig að sinni hvort ég komi til með að styðja það að þetta mál hljóti framgöngu. Við vinnu þessarar tillögu á síðasta þingi kviknuðu alveg gríðarlega margar siðferðislegar spurningar og mörg álitaefni.

Ég ætla að nefna eitt álitaefni sem ég hef mjög verið að velta fyrir mér. Það er að mér finnst vera búið að snúa þeim rétti við sem snýr að foreldrum. Samkvæmt þessu er það réttur hvers einstaklings eða foreldra að eignast barn á meðan mannréttindasáttmálar og Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna ganga út á það að lög eigi að vernda barn til lífs. Þessar spurningar verðum við að fara yfir við vinnslu tillögunnar, það er alltaf barnið sem er í forgangi hvernig sem það er til komið í þennan heim.

Þar sem nú liggur fyrir í fjárlagafrumvarpinu að skera á niður til tæknifrjóvgana lít ég svo á að ekki sé um jafnréttismál að ræða eins og farið var yfir í ræðunni. Það virðast þá eingöngu vera efnameiri foreldrar sem eiga kost á þessu úrræði. Ef ríkið getur ekki staðið undir einföldum tæknifrjóvgunum fellur sá réttur burtu fyrir efnaminni foreldra. Hefur þingmaðurinn ekki áhyggjur af því að það jafnrétti verði brotið nái þetta mál fram að ganga og smíða verði frumvarp til að þessi staðgöngumæðrun verði leyfileg?