140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[16:08]
Horfa

Flm. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst út af ríkisborgararéttinum þá er það ekki alveg rétt hjá hv. þingmanni að það sé komið inn núna en hafi ekki verið áður. Það var líka nefnt í greinargerðinni seinast, sem hv. þingmaður var flutningsmaður að, að athuga þyrfti hvort hægt væri að setja einhver skilyrði um að fólk hefði verið búsett hér eða ætti lögheimili hér eða væri íslenskir ríkisborgarar. Þessum spurningum hef ég ekki getað svarað vegna þess að það þarf líka að fara eftir alþjóðasamningum og lögum og ég mælist því til þess að þetta verði eitt af þeim atriðum sem starfshópi velferðarráðherra verði falið að skoða.

Varðandi Norðurlöndin þá blæs ég bara á það að við megum ekki gera neitt hér án þess að Norðurlöndin séu búin að prófa það áður. Ég veit ekki betur en að í málum sem snerta mannréttindi, eins og fæðingarorlof, jöfnun fæðingarorlofs fyrir báða foreldra, milli karla og kvenna, réttindi samkynhneigðra, ýmis svona réttindamál, höfum við tekið forustu á Norðurlöndum, þau hafa komið á eftir. Það er mér ekkert metnaðarmál að við verðum fyrsta landið á Norðurlöndunum en mér finnst það einfaldlega ekki skipta máli. Þetta er eitthvað sem við ræðum hér núna. Þetta er til umræðu annars staðar á Norðurlöndunum.

Af því að hv. þingmaður nefndi Indland og iðnaðinn þá er það alveg rétt, það er skelfileg mynd sem hefur verið sýnd af þessum iðnaði á Indlandi. En hvað gerum við í því? Við getum passað upp á að það séu ekki íslenskir ríkisborgarar, íslenskir barnlausir einstaklingar og pör, sem sækja í þann iðnað með því að heimila þetta hér með þeim siðferðislegu skilyrðum og þeim gildum sem okkur þykja mikilvæg.

Fæðingarorlof og réttindi kvenna á Indlandi er dálítið frábrugðið fæðingarorlofi og réttindum kvenna á Íslandi. Það er sá greinarmunur sem ég vil gera á milli okkar og annarra í þessu máli. (Forseti hringir.) Ég vil passa upp á að við gerum þetta þannig að okkur líði vel með það. (Forseti hringir.) Og ég er þess algerlega fullviss að það getum við.