140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[16:19]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka þeim sem flutt hafa ræður um þetta mál. Ég þakka 1. flutningsmanni fyrir yfirferð hennar á þessu máli og ég vil líka þakka síðasta ræðumanni, hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, fyrir mjög góða ræðu. Ég held að ég geti tekið undir nánast allt í ræðu hennar og ágæta yfirferð yfir þau álitamál og hvað það er sem býr í brjóstum okkar flestra, held ég, sem styðjum það að þetta mál verði tekið til skoðunar.

Ég vil, frú forseti, segja að við sem eigum börn og eigum því láni að fagna að vita hvílíkir gleðigjafar börn eru, við vitum hve mikil hamingja það er að eignast barn. Því segi ég: Ef við getum uppfyllt eða veitt öðrum þá ánægju, án þess að einhver annar bíði skaða af eða við brjótum siðferðilega múra, þá eigum við að leita leiða til þess. Ég tek hins vegar undir með þeim ræðumönnum sem hér hafa talað að staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni er ekki valkostur að mínu viti. Ég tek þar af leiðandi undir orð hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur hvað þetta varðar m.a. Við viljum að málið verði skoðað mjög alvarlega af þinginu og framkvæmdarvaldinu hvort hægt sé að búa þannig um hnútana að þessi mál geti verið í farsælum farvegi eins og svo mörg önnur. Til að geta búið til reglur, til að geta sett málið inn í ramma sem vonandi flestir geta verið sáttir við þurfum við að velta við öllum steinum, skoða málið ofan í kjölinn og þess vegna er svo mikilvægt að þetta mál fái framgang innan þingsins.

Við munum svo væntanlega þurfa að gera upp hug okkar á endanum þegar kemur fram mögulega frumvarp um staðgöngumæðrun, þ.e. hvernig umhverfið eða umbúnaður um þessa hluti eiga að vera. Það er ekki víst að allir verði þá sömu skoðunar þó að við leggjum af stað með það núna að vilja skoða þessi mál. Það er ekki þar með sagt að þingmenn muni samþykkja hvaðeina sem kemur út úr þeirri skoðun.

Frú forseti. Við verðum að skoða málið ofan í kjölinn. Þetta kann að virka lítið mál en þetta er, eins og einhver sagði á síðasta þingi, hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir, held ég, samt risamál fyrir mjög marga. Við þurfum að tryggja hag barnsins, það er sett í fyrirrúm. Við þurfum að tryggja hag staðgöngumóðurinnar og foreldranna sem fá hið nýfædda barn. Að öllu þessu þarf að huga og það gerum við með því að hreyfa við málinu, með því að reyna að vanda vinnu okkar.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, frú forseti. Ég hvet til þess að málið fái góða meðferð í þinginu og um það verði búið þannig að við getum tekið málið til enda og búið okkur til ramma í framhaldinu um þessa viðkvæmu en um leið mikilvægu hluti.