140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[16:23]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um staðgöngumæðrun, tillögu þar sem nú eru á 23 þingmenn og hefur fjölgað í hópi þeirra sem eru tilbúnir að leggja þessu máli lið.

Hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir, 1. flutningsmaður, fór ágætlega yfir þingsályktunartillöguna. Ég vil eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson einnig þakka hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur fyrir með hvaða hætti hún fór í gegnum þá röksemdafærslu sem liggur að baki því að hún er flutningsmaður að þessari tillögu. Það var einkar vel gert og tek ég heils hugar undir hvert orð sem þar kom fram.

Sú þingsályktunartillaga sem nú liggur fyrir er lítillega breytt frá þeirri sem upprunalega var lögð fram. Ég sat í þeirri heilbrigðisnefnd sem fór yfir þá þingsályktunartillögu og gerði á henni breytingar og hún er hér í formi þeirrar sem við nú ræðum.

Mig langar að leggja áherslu á að hér er verið að leggja til að fela hæstv. velferðarráðherra að skipa starfshóp sem undirbúi frumvarp til laga sem heimili staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Það verður væntanlega við gerð þess frumvarps sem umræða víðs vegar fer fram en ég er sammála þeim sem hér hafa talað að umræðan hefur farið fram víða. Hún hefur kannski ekki farið mjög hátt en hún hefur farið fram mjög víða.

Ég vil benda á, virðulegi forseti, að árið 1996 voru sett lög um tæknifrjóvgun sem tóku þó fyrst og síðast til ófrjósemi. Síðan voru samþykkt lög frá Alþingi árið 2006 sem gengu mun lengra en lögin frá 1996 gerðu ráð fyrir þar sem einhleypum konum og lesbískum pörum var heimilað að fara í tæknifrjóvgun. Það frumvarp fékk árið 2006 litla sem enga umræðu í sölum Alþingis. Sú tillaga sem hér er lögð fram, að fela velferðarráðherra að semja frumvarp sem heimili staðgöngumæðrun, er í raun og veru til þess að mæta því misrétti sem tveir hópar samfélagsins standa frammi fyrir, þ.e. annars vegar samkynhneigðir karlmenn og konur sem einhverra hluta vegna ekki hafa leg eða sjúkdóms síns vegna geta ekki gengið með börn. Þetta eru þeir tveir hópar sem lögin frá 2006 skildu eftir þannig að það er misrétti gagnvart borgurum þessa lands hvað varðar löggjöf frá Alþingi. Með leyfi til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni er verið að reyna að gera tilraun til að leiðrétta þetta misrétti.

Ég tek heils hugar undir það sem kom fram bæði hjá hv. flutningsmanni Ragnheiði E. Árnadóttur sem og hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur að það eru margar siðferðisspurningar sem við þurfum að svara og væntanlega margar slíkar spurningar sem samfélagið verður að svara. En það er ólíðandi að mínu mati að þetta sé gert á þeim forsendum að hér sé lagt til að hægt sé að nota og nýta líkama konu til einhverra þátta. Við erum að tala um að þetta sé gert í velgjörðarskyni eingöngu og sú kona sem samþykkir það samþykkir það á þeim forsendum sem væntanlega verða dregnar fram í verðandi frumvarpi sem síðar verður að lögum og þeir aðilar sem þurfa þess gera það með sömu skilmálum.

Ég bið þess, virðulegi forseti, að orðin vændi og misnotkun á líkama konu verði ekki dregin inn í þessa umræðu. Höldum okkur við það sem þingsályktunartillagan leggur til, að það er verið að ræða þetta í velgjörðarskyni. Það er ekki verið að ræða þetta í hagnaðarskyni, það er ekki verið að ræða það að fólk geti keypt sér þjónustu af því að einhver kona vilji hugsanlega ekki ganga með það barn sem hana langar til að eiga. Forðumst slíka umræðu Tökum á þessu út frá því sem hér er lagt til en ekki því sem gerist í öðrum löndum. Ég held að það muni skipta okkur máli því að nægur er siðferðislegur ágreiningur um heimild þessa þó að slíkum hugtökum sé ekki blandað inn í.

Ég veit ekki hvort þeir sem ekki eru foreldrar átta sig á þeirri kvöl sem þeir sem ekki geta einhverra hluta vegna eignast börn búa við vegna þess að þeir sem hafa orðið þeirrar gæfu aðnjótandi telja það sjálfsagðan hlut. Við vitum líka að það er ekki sjálfsagður hlutur að fá í hendurnar heilbrigt barn. Það er heldur ekki sjálfsagður hlutur að fá að ala upp barn vegna þess að sumir foreldrar hafa verið sviptir forsjá barna sinna. Við getum heldur ekki talað hér um að þeir sem óska eftir staðgöngumæðrun geti farið einhverja aðra leið og ættleitt annarra manna börn. Það er ósk þeirra sem vilja fara leið staðgöngumæðrunar að eignast sitt eigið barn með aðstoð annarra vegna þess að einhverra hluta vegna er konan ekki fær um að ganga með barn og samkynhneigðir karlmenn eðli málsins samkvæmt geta það ekki.

Frú forseti. Mér finnst ekki þurfa að hafa mörg orð um þessa þingsályktunartillögu í þessari umræðu. Hún gengur nú til nýrrar velferðarnefndar sem tekur tillöguna til umræðu og umsagnar. Ég vænti þess að við það loforð verði staðið sem gefið var á septemberþinginu að þingsályktunartillagan komi hér til afgreiðslu fyrir lok haustþings og alþingismenn á Alþingi Íslendinga taki afstöðu til þess hvort þeir eru reiðubúnir að fela velferðarráðherra að skipa starfshóp sem undirbúi frumvarp til laga sem heimili staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.