140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[16:38]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því að taka fram að það er rétt hjá hv. þingmanni að ég var einn tveggja flutningsmanna frávísunartillögu málsins enda var það svo að í þinglok höfðu umræður um Stjórnarráð Íslands staðið í um 60 klukkustundir og við og margir þingmenn vorum einfaldlega þeirrar skoðunar að það væri fráleitt að taka umræðu um svona grundvallarmálefni í tímahraki á nokkrum klukkutímum. Ég er sammála því mati 1. flutningsmanns að rétt hafi verið að taka málið af dagskrá í kjölfarið þannig að kostur gæfist á betri umræðu.

Varðandi umfjöllun félags- og tryggingamálanefndar skal ég viðurkenna hér og nú að ég man ekki hvaða gestir komu á fund nefndarinnar. Heilbrigðisnefnd fjallaði mjög ítarlega um málið og þessar tvær nefndir sköruðust þannig að mörg okkar í félags- og tryggingamálanefnd sátu líka í heilbrigðisnefnd. Ég man illa akkúrat þessa stundina hvaða gestir komu á fundi hvaða nefndar. En varðandi umsagnaraðila skal ég taka fram að meiri hluti umsagna var mjög neikvæður. Það voru hagsmunasamtök fólks sem vill leyfa staðgöngumæðrun og einhverjir læknar með ófrjósemi sem sérgrein og Frjálshyggjufélagið sem mæltu með tillögunni. Aðrir gerðu það ekki.