140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[16:46]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Í ljósi þess að ég er til, óháð því hvort ég þekki uppruna minn eður ei, svara ég með gleði spurningu hv. þingmanns.

Nú er það svo að í þessum heimi er fjöldi barna sem þekkir ekki uppruna sinn sem kemur til af ýmsum ástæðum. En barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna kveður á um það að með lögum getum við ekki tekið þennan rétt frá börnum. Nú er líka rétt að taka það fram að þessi umræða er miklu víðtækari en svo að hún nái eingöngu til staðgöngumæðrunar því að staðgöngumæðrun er hægt að heimila þannig að tryggt sé að barn geti þekkt uppruna sinn. Ég bara ákvað að koma þessu að samhliða því að ég hef verið mjög hugsi yfir þessu og var einn þeirra þingmanna sem stóð að þessari löggjöf því að hér fer margt í gegn sem við erum ekki búin að lúslesa. Ég er ekki viss um að þetta sé heillaskref sem við erum að stíga þegar við erum með lögum að svipta börn réttinum til að þekkja uppruna sinn.

Síðan er það þannig í lífi okkar að það eru allra handa hlutir sem gerast og eiga sér stað. En hitt er annað mál hvort við síðan stígum það skref í lögum að taka af börnum þann rétt. Það höfum við gert í andstöðu við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og í andstöðu við barnalögin íslensku.