140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[17:08]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er oft þannig þegar verið er að taka svona grundvallarákvarðanir að þá er ágætt að hugsa hvaða skref kunni að fylgja í kjölfar þess að ákvörðun sé tekin. Ég fór stutt yfir það í ræðu minni að það eru mjög margir sem benda á það að mörkin milli velgjörðar og staðgöngumæðrunar í hagnaðarskyni séu langt í frá að vera algerlega ljós. Bent hefur verið á að í Englandi þar sem staðgöngumæðrun er heimil í velgjörðarskyni hafi það haft áhrif til breytinga á viðmiðun að það sé þrátt fyrir velgjörðina dýrt úrræði, ef við viljum kalla það svo, og að efnaminna fólk sé að sækja til Indlands og svipaðra ríkja því að það sé ódýrara þar.

Ég vil spyrja þingmanninn hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að ef við veittum heimild sem þessa kunni það að gera mörkin óljósari og það skapist þrýstingur á tilslökun í löggjöfinni þannig að í raun missum við tökin á því hvernig þessu úrræði er beitt og það verði stöðugur þrýstingur á frekari rýmkun löggjafarinnar. Ég veit að þetta er pínulítið ósanngjarnt, ég er að spyrja þingmanninn ef-spurninga, en ég held samt að það sé mikilvægt að við höfum þetta í huga þegar við ræðum grundvallarspurningar að um leið og við byrjum að setja lagaramma um eitthvað þá er líklegt að mörkin þenjist.