140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[17:14]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom réttilega inn á það í andsvari sínu að þetta eru grundvallarhugtök sem við ræðum hér, um jafnrétti, siðferðisspurningar og annað. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni um það en mér finnst samt og ég hef þá trú að við búum í þannig þjóðfélagi að við getum axlað þá ábyrgð og munum gera það í framtíðinni að svara slíkum spurningum.

Ég er hins vegar algerlega ósammála hv. þingmanni um það eins og ég kom inn á í ræðu minni áðan, ég er ekki tilbúinn til að bakka með það að fela hæstv. velferðarráðherra að láta undirbúa frumvarp og skila í staðinn skýrslu. Ég tel þjóðfélag okkar vera komið á þann stað að við getum haldið lengra áfram. Ég er ekki að gera lítið úr málflutningi annarra hv. þingmanna, ég tek hann mjög alvarlega, þær ábendingar sem þeir koma með. Ég tel líka, svo það komi skýrt fram, að þeir hv. þingmenn sem hafa ákveðnar efasemdir geri það af sömu heilindum og ég tel mig vera að gera hér og af hugsjón. Það má ekki misskilja það á þann veg svo það sé alveg á tæru.

Menn geta svo rætt kostnaðinn og haft áhyggjur af því hvort þetta sé bara fyrir þá sem eru efnameiri. En hvernig er þetta í dag? Hvernig er umhverfið í dag? Er það ekki með þeim hætti að fólk sem ætlar að fara að ættleiða börn — í fyrsta lagi er það orðið mjög erfitt eins og komið hefur fram í þessari umræðu og við þekkjum — hvernig eiga efnaminni foreldrar að geta ættleitt börn? Hafa þeir efni á því? Nei, ég tel svo ekki vera. Það er a.m.k. sá mismunur og þá mundu efnalitlir foreldrar væntanlega frekar geta farið þessa leið og það væri jafnvel miklu ódýrara en að fara hina leiðina. Það eru svona spurningar sem þarf að spyrja. En ég tek undir með hv. þingmanni að þetta fjallar nefnilega líka um jafnrétti fyrir foreldra til að geta eignast börn.