140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[17:16]
Horfa

Davíð Stefánsson (Vg):

Frú forseti. Fyrir þinginu liggur vægast sagt umdeild tillaga sem snýr að staðgöngumæðrun. Á bak við hana liggur án vafa góður hugur flutningsmanna og -kvenna, um það er alger óþarfi að efast. Þó spyr maður sig hvernig hægt sé að líta fram hjá fjölmörgum neikvæðum umsögnum eins og rætt hefur verið um dag, umsögnum sem bárust vegna tillögunnar í nefndarstarfi.

Þingsályktunartillagan hnígur að því að lagt verði fram frumvarp sem heimili staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Þetta er sem sagt risastórt skref og er í engu samræmi við tóninn í umsögnum fjölmargra aðila. Almenn sátt virðist þó ríkja um að ekki sé æskilegt að leyfa staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni og er það einn af fáum jákvæðum punktum í allri þessari viðkvæmu umræðu.

Í janúar 2009 skipaði þáverandi heilbrigðisráðherra starfshóp sérfræðinga til að fara yfir álitaefni tengd staðgöngumæðrun. Sá hópur skilaði áliti þar sem hann lagðist gegn því að staðgöngumæðrun yrði heimiluð að svo stöddu. Þess vegna vekur framlagning þingsályktunartillögunnar sem hér liggur fyrir nokkra furðu.

Í áliti starfshópsins kemur margt merkilegt fram, meðal annars að reynsla annarra þjóða sýni að erfitt sé að koma í veg fyrir að þær aðstæður skapist að velgjörð breytist í hagnaðarsjónarmið. Vandséð er hvernig takast má að koma í veg fyrir kúgun eða þvingun þegar kemur að staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni og fjölmargar rannsóknir benda til þess að eitt leiði af öðru, að stuttur vegur sé frá velgjörðarsjónarmiðinu yfir í gróðasjónarmið, að með því að leyfa A opnist leiðin að B greitt og fljótt eða hægt og bítandi.

Í tillögunni er gengið út frá því að það séu réttindi fólks að eignast sín eigin börn með hvaða ráðum sem er og að litið sé á konur, æxlunarfæri þeirra og líkama, sem sjálfsögð verkfæri í þeim tilgangi að tryggja öðrum slík réttindi. Í lokaáliti fyrrnefnds starfshóps kemur orðrétt fram að helstu rök gegn staðgöngumæðrun séu að hætta sé á að litið sé á staðgöngumóðurina sem hýsil utan um barn. Með því að leyfa staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni væri verið að samþykkja þá hugmynd að það sé í lagi að nota líkama annarra sem leið að eigin markmiði. Slíka sýn á manneskjuna eigum við ekki að samþykkja, sérstaklega ekki án verulegrar umræðu. Sú umræða hefur ekki farið fram þrátt fyrir orð sem hafa fallið í dag sem ganga þvert á það. Við skuldum okkur sjálfum og öllum hlutaðeigandi það að skoða málin af yfirvegun og ofan í kjölinn.

Í öllu þessu samhengi er sorglegt til þess að vita hversu erfitt, flókið og tímafrekt ættleiðingarferlið er. Miklu nær er að yfirvöld geri betrumbót í ættleiðingarmálum þannig að þeir mörgu hæfu foreldrar sem þrá að eignast börn eigi auðveldara með að ættleiða börn sem þegar eru fædd og þurfa á foreldrum að halda.

Umboðsmaður barna er á sama máli í umsögn sinni og segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Umboðsmaður barna hefur skilning á því hversu erfitt það er fyrir einstaklinga eða pör að geta ekki eignast barn. Af 3. gr. barnasáttmálans leiðir þó að réttur barns til að eiga góða foreldra eigi að ganga framar hugsanlegum rétti fullorðinna til að stofna fjölskyldu. Í því sambandi er mikilvægt að hafa í huga að það eru fjölmörg börn út um allan heim sem eru munaðarlaus og þurfa á góðum foreldrum að halda. Væri því eðlilegra, að mati umboðsmanns barna, að ríkið mundi beita sér fyrir því að auðvelda ættleiðingu barna.“

Tilvitnun lýkur, og reyndar mjög skýrri tilvitnun frá aðila sem við viljum yfirleitt taka mark á.

Ég vil hvetja flutningsmenn tillögunnar til að taka mark á þessum neikvæðu umsögnum sem hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir las upp áðan. Þær voru 15. Viljum við heimila staðgöngumæðrun á meðan allir þessir aðilar vara við því? Hvers vegna? Hvað liggur þar að baki. Væri faglegt af Alþingi að hunsa þessar umsagnir?

Ég er sjálfur eindregið á móti staðgöngumæðrun af ýmsum sökum, ekki síst fyrir þá kuldalegu staðreynd að heimurinn er fullur af börnum sem eiga enga fjölskyldu, börnum sem hægt er að ættleiða. Ég er á móti staðgöngumæðrun en ég get að sjálfsögðu stutt einhvers konar millileið sem fælist í frekari skoðun á vegum yfirvalda. Tillagan sem hér liggur fyrir krefst þess að Alþingi lýsi yfir vilja til að heimila staðgöngumæðrun. Staðgöngumæðrun er eldfimt, tilfinningalegt og viðkvæmt álitamál sem þarf að leiða til lykta fremur en keyra það gegnum þingið með látum þvert á umsagnir fagaðila.

Í heitum umræðum um málefni staðgöngumæðrunar á netinu las ég þessi fleygu og flugbeittu orð sem ég vil gera að lokaorðum mínum í bili: Ég lít ekki á barneignir sem mannréttindi, ég lít á barneignir sem forréttindi.