140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[17:52]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og deili áhyggjum hans af þeim sem hugsanlega hafa lent í því að vera staðgöngumæður í hagnaðarskyni.

Mig langar að spyrja hann um þrennt. Í greinargerð með þingsályktunartillögunni stendur meðal annars:

„Hvernig er best komið í veg fyrir staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni og hvernig má tryggja að um velgjörð sé að ræða?

Hvernig má tryggja faglega afgreiðslu á umsóknum og leyfum sem og skýrt eftirlit og eftirfylgni með framkvæmdinni?“ — Þ.e. hverjir fá heimild til staðgöngumæðrunar og hvernig því verður fylgt eftir.

„Hvernig verður best stuðlað að opinni og upplýstri umræðu um staðgöngumæðrun í samfélaginu?“

Mig langar að spyrja hv. þingmann, virðulegur forseti, um þau þrjú atriði sem ég nefndi, sem eru hluti af þeim skilyrðum sem meiri hluti heilbrigðisnefndar sem sat á síðasta þingi lagði til að kæmu fram í þingsályktunartillögu og liggja hér fyrir — og ég ítreka ef þetta yrði gert í velgjörðarskyni en ekki hagnaðarskyni, ef tryggt yrði faglegt eftirlit með umsóknum og leyfum og eftirlit með framkvæmdinni og hvernig yrði best stuðlað að opinni og upplýstri umræðu. Telur hann að þessi atriði í þingsályktunartillögunni, sem eru hluti af því sem verið er að fela hæstv. velferðarráðherra að sjá um, komi til móts við þá sem hugsanlega eru á móti þessu og hvort hugsanlega sé hægt að ræða þessi þrjú atriði frekar þannig þau tryggi það sem þingmaðurinn sagði margoft að staðgöngumæðrun verði aldrei í hagnaðarskyni?