140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[17:59]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég er einn flutningsmanna þessarar þingsályktunartillögu og ætla ekki að endurtaka mikið það sem ég ræddi um síðastliðinn vetur þegar málið kom á dagskrá. Það varð samkomulag um að taka það af dagskrá í lok septemberþings, m.a. vegna þess sem hér var lýst, að það var mikil tímapressa á þinginu. Menn voru orðnir þreyttir og vægast sagt mjög pirraðir, þó ég tali ekki fyrir aðra þingmenn en þann sem hér stendur. Mönnum þótti líka málið ekki fullrætt. Menn vildu fá lengri og betri tíma til að fara ofan í einstaka þætti og það var eðlilegt og það voru sjónarmið sem ég gat fyllilega fallist á. Þess vegna var ákveðið að taka málið aftur fyrir á nýju þingi og tryggja þá betri tíma til að ræða það. Nú er sem sagt komið að því. Það verður þó að segjast að ég hefði talið betra að menn hefðu fengið aðeins meira tóm til að ræða þetta í þingflokkunum og fara betur ofan í saumana á þeim álitamálum sem hér hafa verið nefnd. Við í þingflokki Vinstri grænna hefðum gjarnan viljað vera búin að fara betur yfir málið í okkar hópi áður en við færum í þessa umræðu því að þar eru skoðanir skiptar, eins og ég hygg að sé í flestum þingflokkum.

Ég tel mjög mikilvægt, og það var reyndar nefnt áðan, að við notum þennan tíma vel. En við skulum líka gæta að því að virða skoðanir annarra og rétt manna til að lýsa yfir efasemdum án þess að hafa svör við öllu og virða rétt manna til að leggja fram spurningar og taka sér tíma til að leita svara við þeim.

Ég sagðist ekki ætla að endurtaka það sem ég sagði í vor um ástæður þess að ég skipti svo að segja um skoðun í þessu efni, ég vil bara segja að þegar ég sem ráðherra fékk í hendur skýrslu um þessi mál, taldi ég að við ættum kannski ekki að brjóta ísinn. Við ættum ekki endilega að verða fyrst Norðurlanda til að heimila með lögum staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. En mér snerist hugur vegna þeirra upplýsinga sem lágu fyrir þinginu síðastliðinn vetur og einnig vegna þess sem hér hefur verið vitnað til, kvikmyndar frá Indlandi. Mér snerist hugur vegna þess að íslensk pör eru að leita til staðgöngumæðra úti í heimi þar sem við getum ekki verið sannfærð um að þær siðferðiskröfur sem við hljótum að gera á þessu landi séu uppfylltar. Það er skelfilegt til þess að hugsa að konur skulu vera neyddar til að ganga með börn fyrir aðra, hvort heldur er sökum fátæktar til að framfleyta sér eða hvort þær eru neyddar til þess af völdum mansals, því það er þekkt, eða annarrar nauðungar af hálfu eiginmanns, föður, fjölskyldumeðlima eða annarra. Það er skelfilegt til þess að hugsa en þannig er einu sinni ástandið í henni veröld. Og það eru tugir ef ekki hundruð Vesturlandabúa sem hafa efni á því að leita eftir þessari þjónustu í fátækari löndum þar sem, eins og ég segi, við getum ekki verið sannfærð um að siðferðiskröfur sem við hljótum að setja í þessum efnum séu uppfylltar.

Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir sagði frá því að Norðmenn væru að þrengja skilyrði þess að koma með börn inn í landið sem fædd eru með staðgöngumæðrun annars staðar en í Noregi, en þar er hún bönnuð svo sem kunnugt er. Það er staðreynd að nokkrir tugir Norðmanna í það minnsta, bíða suður á Indlandi með börn sem eru fædd þar með staðgöngumæðrun. Þeir hafa jafnvel beðið þar í eitt eða tvö ár með börnin en fá ekki að koma heim til Noregs vegna þess að það er álitið brot á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, þessu er líkt við viðskipti með börn og menn fá ekki vegabréf fyrir börnin. Fólkið fær hvorki að fara með þau út úr Indlandi né inn í annað land, hvort heldur það er Frakkland eða Noregur en það eru þau dæmi sem ég hef skoðað.

Ég tel að staða okkar á Íslandi sé góð, við höfum mjög skýran, framsækinn og frjálslyndan lagaramma, m.a. um tæknifrjóvgun eins og hér hefur verið nefnt, við höfum verið fyrst Norðurlanda til að brjóta ísinn hvað varðar heimildir einhleypra til að eiga börn með tæknifrjóvgun og heimildir einhleypra kvenna og samkynhneigðra og það er allt saman vel. Ég tel að þetta sé ekki miklu stærra skref vegna þess að nú þegar er löglegt að kona megi ganga með barn sem er erfðafræðilega algerlega óskylt henni sjálfri. Á því er heldur ekki munur. Við höfum líka mjög sterkan og góðan lagaramma um ættleiðingar og um barnavernd, við höfum gott heilbrigðiskerfi og mikla og góða reynslu nú orðið af tæknifrjóvgun.

Menn tala um að mörkin milli velgjörðar og viðskipta geti verið óljós. Það er klárt að sérstaklega er um það að ræða í löndum þar sem heilbrigðisþjónusta er dýr, þar sem heilbrigðisþjónusta er ekki ókeypis. Á bls. 2 í greinargerð þingsályktunartillögunnar er nefnt að eitt af því sem spyrja þurfi um sé hvort heimila eigi að verðandi foreldrar greiði staðgöngumóður endurgjald fyrir útlagðan kostnað af þungun. Hvaða útlagðan kostnað bera konur almennt af þungun á Íslandi? Meðganga og fæðing eru að fullu greidd í íslensku heilbrigðiskerfi. Það á ekki að þurfa að koma til neinnar endurgreiðslu. Sem betur fer eru konur hættar að ganga í sérstökum óléttukjólum þannig að það á ekki heldur við. (Gripið fram í.) Já, stærri föt, en það er ekki útlagður kostnaður af meðgöngu og fæðingu. Og það er ekki heldur þannig að þar skilji á milli efnamanna og þeirra sem minna hafa handa á milli hér á landi. Við höfum þessa samtryggingu, þetta almenna heilbrigðiskerfi, við höfum þennan jöfnuð í kerfinu. Þessir þættir eru sem betur fer enn þá algerlega ókeypis, þó að farið sé að kalla eftir greiðslu fyrir ýmislegt í heilbrigðisþjónustunni sem ég er ekki endilega sammála.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð miklu fleiri. Ég ætla þó að bæta einu við varðandi viðskiptin. Heilbrigðisþjónusta er ekki hluti af þjónustutilskipun Evrópusambandsins og það er ekki svo að þó að hér kæmi löggjöf sem heimilaði staðgöngumæðrun, værum við þar með að setja allar íslenskar konur undir það ok að þurfa að ganga með börn fyrir Evrópu eða aðra í heiminum. Við erum að tala um að hér gætu um það bil fimm pör á ári uppfyllt skilyrði þess að hafa þörf fyrir staðgöngumæðrun vegna ýmissa atriða, hafandi væntanlega gengið í gegnum mjög langt ferli í öðrum efnum.

Ég á sæti í hv. velferðarnefnd, og er reyndar formaður hennar, sem fær þessa þingsályktunartillögu væntanlega til umræðu. Ég er alveg sannfærð um að nefndin mun taka sér góðan tíma í að vinna þetta eins vel og mögulegt er.