140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[18:15]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála því að þetta eru gríðarlega stórar spurningar sem snerta allt mannlegt samfélag, í heimi sem fer sífellt minnkandi. Ég get bara endurtekið að ég tel að við höfum verk að vinna og við getum sýnt ákveðið fordæmi eins og við höfum reyndar gert með öðrum lagasetningum á sviði tæknifrjóvgunar. Tæknin er til, þörfin er fyrir hendi, við höfum lagarammann og við höfum tiltekna reynslu.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að það er erfitt að koma böndum á dýrið, þ.e. græðgina og markaðsvæðinguna. Hér á landi höfum við þó fetað tiltekið einstigi þar líka, eins og í svo mörgu öðru, og höfum þar reynslu. Þá er ég að tala um tæknifrjóvgun þar sem pör þurfa ekki að borga fyrir fyrstu meðferðina að fullu, síðan þarf að borga fyrir meðferð nr. tvö til fjögur en fimmtu meðferð þurfa menn að borga að fullu. Þarna höfum við líka sett ákveðið fordæmi. Við höfum skoðað þetta og komist að þessari niðurstöðu og ég kannast ekki við að menn hafi kvartað mikið undan þessari aðferðafræði, þó að menn kvarti undan kostnaðinum því hann er mikill. Aðferðafræðin er fyrir hendi. Og það er svo margt annað í reynslu okkar í heilbrigðisþjónustunni sem getur komið að notum við að skoða málið frá öllum hliðum. Það erum við vonandi sammála um að gera.